144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:26]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir prýðisræðu. Hv. þingmaður velti upp ýmsum spurningum, meðal annars gagnvart almannaréttinum, og fór þar inn á efnahagslegu áhrifin, tengdi við einkanýtingu auðlindanna, eins og ég skildi hv. þingmann. Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður sé að vísa í 4. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ferðamannastaðir í eigu annarra en opinberra aðila geta sótt um aðild að náttúrupassa.“

Er hv. þingmaður að tala um þann þátt þeirrar greinar? Reyndar kom skoðun hv. þingmanns á þessum hluta ágætlega fram í andsvörum við hv. þm. Pétur Blöndal og Ögmund Jónasson.

Við, ég og hv. þingmaður, erum hins vegar sammála um að brýnt er að byggja upp, verja og viðhalda og vernda náttúruna og dýrmæta ferðamannastaði og náttúruperlur. Hv. þingmaður nefndi að þrátt fyrir að náttúrupassinn yrði að lögum mundi það ekki duga til að klára fjármögnun á nýtingu og viðhaldi þetta árið þó að við séum með gistináttagjaldið, sem mér heyrðist hv. þingmaður tala sem mest fyrir. Ef það dugar ekki í dag hvaða leið mundi hann þá vilja fara? Vill hv. þingmaður hækka það gjald?