144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég á nokkuð erfitt með að sjá fyrir mér framkvæmd fyrirliggjandi frumvarps um náttúrupassa en á sama tíma er ekki sagt að ekki sé ýmislegt jákvætt við frumvarpið. Ég er sammála því markmiði frumvarpsins að nauðsynlegt sé fyrir ríkissjóð að afla frekari tekna til að vernda náttúru Íslands vegna aukinnar umferðar um landið og til að stuðla að öryggi þeirra sem eru á ferðinni.

Ég var því sammála því að frumvarpið skyldi lagt fyrir þingið en legg mikið upp úr því að það fái vandaða umfjöllun. Ég vænti þess að margir hagsmunaaðilar sendi inn umsagnir og að hv. atvinnuveganefnd, sem væntanlega fær frumvarpið til umsagnar, kafi ofan í kosti og galla allra þeirra leiða sem nefndar hafa verið sem mögulegar til að ná markmiðunum. Ég hef því fulla trú á að hægt verði að vinna með frumvarpið og bæta það í meðferð þingsins.

Annað sem ég er sammála er stofnun fagráðs um öryggismál ferðamanna sem fjallað er um í 5. gr. frumvarpsins. Það finnst mér mjög jákvætt og mikilvægt skref og ég velti fyrir mér hvort hlutverk ráðsins eigi einkum að snúa að verkefnum sem tengjast beint úthlutun fjármuna eða hvort því sé ætlað víðtækara hlutverk. Ég tel mikilvægt að nýta tækifærið ef stofnað er slíkt ráð að fela því fleiri og betur skilgreind verkefni en lesa má út úr frumvarpinu varðandi áætlanir um öryggismál.

Álitaefnin varðandi frumvarpið eru í mínum huga fyrst og fremst hvernig teknanna er aflað og hvort ákvæði frumvarpsins brjóti í bága við almannaréttinn. Varðandi tekjuöflunina er ég ekki sannfærð um að náttúrupassi sé besta leiðin. Vissulega hafa verið færð rök fyrir því að ferðaþjónustan skili ekki skatttekjum til samfélagsins í samræmi við aukið umfang hennar og aukið álag á náttúru og innviði. Það þarf því tvímælalaust að bæta tekjuöflun ríkisins á þessu sviði, en er alveg nauðsynlegt að finna nýjar leiðir til tekjuöflunar eða væri hægt að nýta betur þær leiðir sem fyrir eru, svo sem með því að bæta virðisaukaskattsinnheimtu og breikka skattstofninn eða með skilvirkari útfærslu á gistináttaskattinum? Stigin voru skref í þá átt að breikka innheimtu virðisaukaskatts af ferðaþjónustu nú um áramótin og frekari vinna í þá veru er í gangi. Ég hef mikla trú á því að hægt sé að bæta skattumhverfi ferðaþjónustunnar þannig að það verði hvort tveggja í senn skilvirkara og sanngjarnara.

Ef niðurstaðan verður að heppilegra sé að fara nýjar leiðir í gjaldtökunni eins og lagt er til með náttúrupassanum er spurning hvort náttúrupassinn sé eina leiðin eða hvort fullreynt sé með komu- og brottfarargjöld. Eins og ég kom að áðan tel ég mjög mikilvægt að atvinnuveganefnd fari vel yfir þá kosti og geri þinginu vel grein fyrir kostum og göllum. Ef farin verður ný leið, þ.e. ef komið verður á nýju gjaldi, finnst mér að fara þurfi í frekari skoðun á því hvort hægt sé að nýta þær innheimtustofnanir og þau eftirlitskerfi sem nú þegar eru til staðar. Á sama tíma og við viljum einfalda kerfið og sameina stofnanir finnst mér mikilvægt að við leitum allra leiða til að fella innheimtu nýs gjalds inn í innheimtukerfi sem fyrir eru því að nýrri leið í innheimtu fylgja nýjar leiðir í stjórnvaldssektum og nýjar leiðir í málskotsrétti með hættu á tilheyrandi útþenslu.

Varðandi eftirlitið finnst mér mikilvægt að búa ekki til nýtt eftirlitskerfi heldur kanna hvort mögulegt sé að nýta þau kerfi sem fyrir eru. Við erum akkúrat núna að vinna að einföldun eftirlits þar sem nefna má sameiningu umferðareftirlits við verkefni lögreglu. Ef auka þarf eftirlit á ferðamannastöðum þætti mér mikilvægt að kanna hvort það eftirlit gæti samræmst landvörslu og stutt þannig við vinnu landvarða og fræðslu samhliða gjaldtökunni og um leið mætti nýta fjármuni betur.

Þá er það almannarétturinn. Í frumvarpinu og greinargerð með því finnst mér ekki nægilega vel sýnt fram á að innleiðing náttúrupassans gangi ekki á almannaréttinn. Sérstaklega hnýt ég um 4. gr. sem mér finnst opna á að innheimt verði aðgangsgjald á ferðamannastöðum í eigu einkaaðila og í versta falli jafnvel ýta undir slíka innheimtu. Hvað merkir til að mynda eftirfarandi málsgrein úr 4. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta?

„Eigendum eða umsjónaraðilum ferðamannastaða sem eiga aðild að náttúrupassa er óheimilt að taka annað aðgangsgjald af þeim sem þá sækja en náttúrupassa. Heimild eigenda eða umsjónaraðila til að taka gjald fyrir veitta skilgreinda þjónustu á ferðamannastöðum er þó ekki takmörkuð.“

Í mínum huga getur þessi málsgrein, eins og hún er þarna, hreinlega styrkt lagagrunn fyrir slíkri innheimtu einkaaðila og möguleika þeirra til að takmarka umferð um land í einkaeigu.

Það eru líka ýmis úrlausnarefni ef komið verður á náttúrupassa. Í 2. gr. frumvarpsins er tekið á því að þeir sem eiga lögheimili á ferðamannastöðum eða vinni á slíkum stöðum þurfi ekki að fá sér náttúrupassa. Mér finnst það ákveðið vandamál að við lagasetninguna þurfi strax að setja inn undanþáguákvæði. Þá koma upp í hugann aðrir sem vinnu sinnar vegna þurfa hugsanlega að fara um ferðamannastaði. Fara undanþágurnar eftir því við hvað er starfað? Er sama hvort starfað er við ferðaþjónustu eða eitthvað annað? Hvað með námsmenn og vísindamenn sem vinna rannsóknarverkefni á ferðamannastöðum? Þurfa þeir hugsanlega náttúrupassa? Hvað með þá sem eru á ferð vegna landnytja en sinna ekki beint störfum á ferðamannastöðunum? Þarf þetta fólk að gera grein fyrir sér? Hvar liggja þessi mörk?

Þetta eru í sjálfu sér allt smávægileg atriði en stundum er gott að velta smáatriðunum upp til að ná heildarmyndinni. Náttúrupassinn og aðrar þær gjaldtökuleiðir sem ræddar hafa verið við innheimtu hafa vissulega sína galla. Stundum er hægt að sníða gallana af með því að fara í lausnamiðaða vinnu: Gistináttaskattur, komugjald, brottfarargjald, nýsjálenska leiðin, skilvirkara virðisaukaskattskerfi, náttúrupassi. Væri hægt að blanda einhverjum af þessum leiðum saman og ná þannig ásættanlegri útkomu?

Töluvert hefur verið rætt um að gistináttaskatturinn skili sér ekki og að á tilteknum landsvæðum fjölgi gistinóttum lítið sem ekkert. Ég hef í talsverðan tíma heyrt mikla gagnrýni á að skráningu á gistinóttum skuli einungis safnað hjá gististöðum sem opnir eru allt árið. Það gerir ferðaþjónustu í dreifbýlinu sem lengst er frá höfuðborginni erfitt fyrir að fylgjast með þróuninni og sumir vilja jafnvel halda því fram að þar sem skráningu er sleppt dragi úr hvata til að skila skatti af gistinóttum þar sem þær eru ekki taldar fram í skýrslum. Er hægt að bæta þá innheimtu? Væri hægt að koma á stigskiptum gistináttaskatti eða leita enn annarra leiða?

Umræðan um gjaldtöku til að standa undir verndun ferðamannastaða og til að stuðla að öryggi þeirra sem eru á ferð um landið hefur á síðustu árum skyggt töluvert á aðra umræðu um uppbyggingu þjónustu sem eðlilegt væri að taka gjald fyrir, svo sem salernisaðstöðu, bílastæði og annað slíkt. Það vantar víða aukna þjónustu við ferðamenn og það er í mörgum tilvikum þjónusta sem eðlilegt væri að taka gjald fyrir þannig að hún stæði undir sér. Þá umræðu þarf að fara í, ekki kannski samhliða en hún má ekki sitja á hakanum.

Vandinn sem fylgir mikilli umferð um landið er ekki nýr og ekki endilega bundinn við þá miklu fjölgun ferðamanna sem átt hefur sér stað á síðustu árum. Vandinn er hins vegar meira áberandi og sýnilegri víðar en hann var fyrir tíu, fimmtán eða tuttugu árum. Það verður að bregðast við.

Það er heldur ekki alltaf beint samhengi á milli fjölda ferðamanna og þeirrar hættu sem býr í náttúrunni. Fáfarnir staðir liggja oft ekki síður undir skemmdum en þeir fjölsóttu. Það er nokkuð sem er mjög mikilvægt að við gleymum ekki í þessari umræðu.

Að lokum, þó að ég hafi vonast eftir að hæstv. ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir, legði fram frumvarp sem væri mér meira að skapi en frumvarpið um náttúrupassa vil ég hrósa ráðherra fyrir það hvernig hún hefur nálgast málið, þ.e. fyrir að vera opin fyrir breytingum og að hafa fylgt því eftir með opnum kynningarfundum um allt land. Það held ég að skipti verulegu máli og ég vona svo sannarlega að sú nálgun leiði til góðrar niðurstöðu.