144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kom þó að því að það rann upp fyrir mér að ég er þrátt fyrir allt framsóknarmaður innst í hjarta mínu. Ég var sammála þessari ræðu að verulega stóru leyti. Mér fannst þetta mjög glögg ræða og málefnaleg. Þær aðfinnslur og athugasemdir sem hv. þingmaður gerði get ég gert allar að mínum. Þegar hún velti fyrir sér skilningi sínum og hinum rétta á tilteknum málslið í 4. mgr. frumvarpsins er það nákvæmlega sama fótakefli og ég hnaut um þegar ég las frumvarpið. Ýmsar aðrar smávægilegar athugasemdir sem hún kom með fannst mér líka mjög glöggar. Þetta er nákvæmlega það sama og ég rak mig á og hugsanlega fleiri. Rennur allt að þeirri niðurstöðu að þetta frumvarp sé einfaldlega ekki nógu vel undirbúið. Það er málið.

Ég er alveg sammála því meginmarkmiði sem hv. þingmaður og eftir atvikum hæstv. ráðherra hefur, sem er að reyna að ráða bót á vanda sem við stöndum frammi fyrir. Við erum sammála um að við þurfum að afla fjár með einhvers konar hætti til að byggja upp ferðamannastaði og vernda landið. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það þurfi í ríkari mæli að gefa gaum ýmsum friðlöndum, friðlýstum svæðum, fáförnum svæðum, eins og hv. þingmaður sagði. Spurningin er bara: Með hvaða hætti gerum við það?

Þess vegna tek ég undir það sem mér fannst vera mjög heilbrigðar efasemdir hv. þingmanns um það hvernig frumvarpið samrýmist almannaréttinum og er náttúrlega algjörlega ósammála því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur sagt hér í dag, ég kem að því síðar í minni eigin ræðu, en það vill svo til eins og mér fannst líka koma fram í ræðu hv. þingmanns að það eru leiðir sem liggja fyrir. Það er til dæmis gistináttagjaldið. Gallarnir sem hæstv. ráðherra tínir upp eru mjög fábrotnir í frumvarpinu, þeir eru nánast ekki til og hv. þingmaður fannst mér koma með lausn á því. (Forseti hringir.) Er þá ekki bara málið, hv. þingmaður og frú forseti, að við sameinumst um að reyna að sníða vankantana af gistináttagjaldinu, hækkum það eftir atvikum og förum hugsanlega líka blandaða leið?