144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra á engan annan kost en þann að segja að hún sé opin fyrir breytingum vegna þess að það er bara mitt mat að ákaflega ólíklegt sé að frumvarpið fari í gegnum þingið að óbreyttum meginstofni þess. Ég held að það sé að koma fram hjá þingmönnum, og það er klárlega viðhorfið úti í samfélaginu, að menn vilja ekki snerta þennan almannarétt umfram það sem þegar hefur orðið og varð til dæmis hér með breytingu 1999 á náttúruverndarlögunum. Það voru mjög umdeildar breytingar þá sem fólu í sér svolitlar takmarkanir, ekki miklar þó. Við viljum það ekki. Við viljum hins vegar með einhverjum hætti sameinast ráðherranum um að finna leiðir til þess að afla fjárins. Þetta er ekki leiðin, að mínu mati og mér heyrist að mati hv. þingmanns líka, vegna þess að það takmarkar einfaldlega rétt sem við höfum notið frá aldaöðli og sem Íslendingar telja ákaflega mikils virði. Það er réttur sem hægt er að nýta og neyta án þess endilega að hann brjóti í bága við ákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar. Það tel ég nú, og þess vegna er ég sammála hv. þingmanni og þakklátur henni fyrir það að segja það bara hreint út, þ.e. einhvers konar blönduð leið. Það eru þrjár, fjórar leiðir sem hægt er að skoða. Hv. þingmaður rakti þær allar, fannst reyndar hún taka eina út fyrir sviga en það er leið sem ég vil skoða líka frekar. Hv. þingmaður spyr mig síðan: Hvernig getum við verndað þessa fáförnu staði? Það eru nokkrir staðir sem eru ákaflega viðkvæmir. Hv. þingmaður nefndi mosa. Ef mosi er troðinn niður tekur það kannski eina öld að bæta það. Það er ekki hægt með öðrum hætti en að koma upp einhvers konar aðstöðu, t.d. hreinlætisaðstöðu, það skiptir miklu máli, og leggja stíga og reyna að stýra umferðinni þannig að hún skemmi landið sem minnst.

Í sumum tilvikum (Forseti hringir.) eru svæði sem liggja undir skemmdum núna sem náttúrupassi mun með engu móti bjarga.