144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um náttúrupassa. Í 1. gr. frumvarpsins segir að markmiðið með þessum lögum sé að stuðla að verndun náttúru Íslands með nauðsynlegri uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða, auk þess að styðja við málefni er tengjast öryggismálum ferðamanna.

Um þessi markmið held ég að við öll séum meira og minna sammála sem sitjum hér inni og um þau stendur ágreiningurinn því ekki. Ágreiningurinn er um þá leið sem hér er lögð til, að afla skuli tekna í ríkissjóð til þess að ná þeim markmiðum með útgáfu og sölu á náttúrupassa.

Lög sem hafa það að markmiði að stuðla að verndun, viðhaldi og uppbyggingu ferðamannastaða þurfa að mínu mati að uppfylla tvennt. Annars vegar að tryggja að nauðsynlegra fjármuna sé aflað og það á sem hagkvæmastan og einfaldastan hátt. Hins vegar að standa vörð um almannaréttinn, þ.e. rétt manna til yfirferðar um landið og eins og hefur verið bent á hér í umræðunni að við rekjum aftur til miðalda, þ.e. til Jónsbókar.

Sú útfærsla sem við ræðum hér með náttúrupassanum gerir hvorugt. Hér er verið að skerða almannaréttinn með því að ætla að láta einstaklinginn sem um landið fer borga fyrir það að horfa á og njóta náttúrunnar og landsins. Í framsögu sinni sagði hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir að þetta væru tíu, tólf staðir sem hún sagði okkur öll þekkja og nefndi svo dæmi af Þingvöllum og Gullfossi. Ég verð að lýsa mig algjörlega ósammála því að það liggi á ljósu hvaða staðir það eru sem hæstv. ráðherra vísar til, því að hvað er í raun ferðamannastaður og hver á að skilgreina eða ákveða hvað sé ferðamannastaður?

Í fylgiskjali II með frumvarpinu, sem er umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, stendur meira að segja, með leyfi forseta:

„Þá liggur ekki fyrir heildarstefna stjórnvalda um hvaða staðir í umsjón ríkis og sveitarfélaga eigi að byggjast upp sem ferðamannastaðir í framtíðinni en sem fyrr segir stendur til að bæta úr þessu síðar með vinnu á því sviði sem færi fram eftir lögfestingu á fyrirhuguðu frumvarpi umhverfis- og auðlindaráðherra um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn í þágu náttúruverndar.“

Þetta er sem sagt allt opið. Ferðamannastaðina á að skilgreina eftir að frumvarpið hefur verið samþykkt. Þó svo að hæstv. ráðherra segi að þetta séu nokkrir staðir sem við þekkjum öll er ekki að sjá að þar sé að byggja á neinu öðru en huglægu mati á því hvað sé ferðamannastaður, og ef þetta verður samþykkt þykir mér alla vega augljóst að almannarétturinn verður fyrir bí. Auk þess að allir ferðamannastaðir í eigu eða umsjá opinberra aðila eigi sjálfkrafa aðild að náttúrupassa, eins og frumvarpið er sett upp, sem undirstrikar enn frekar hversu gloppótt og illa ígrundað það í raun er, þá segir í 4. gr. frumvarpsins að ferðamannastaðir í eigu annarra aðila en opinberra geti sótt um aðild að náttúrupassa. Einkaaðilar mega sem sagt verða aðilar að passanum en þurfa það ekki. Samkvæmt þessu frumvarpi er ekkert sem stoppar þá í að innheimta sjálfir það gjald af ferðamönnum sem þeir kjósa. Ef opinberir aðilar, þ.e. ríkið er farið að taka gjald fyrir það að njóta landsins og þess sem kemur til með að verða skilgreint sem náttúruperlur eða ferðamannastaðir, hvers vegna þá að stoppa þar? Svona frumkvæði af hálfu ríkisins að innheimta beinlínis gjald fyrir það að njóta ferðamannastaða sem eru í eigu eða umsjá opinberra aðila hlýtur að virka hvetjandi frekar en letjandi á þá aðila sem hafa náttúruperlur á jörðum sínum til þess að taka upp eigin gjaldtöku. Með samþykkt frumvarpsins væri fordæmið frá ríkinu svo sannarlega komið.

Ég spyr því: Hvers konar glundroðakerfi erum við að koma á með slíku og að leggja grundvöll að, að ríkið rukki á einum stað og einkaaðilar á öðrum eftir því sem þeim þóknast? Ég fæ ekki séð að það sé neitt í þessu sem stoppar þá þróun.

Hæstv. forseti. Jafnvel þó svo að okkur mundi hugnast þetta fyrirkomulag, þ.e. að selja fólki sérstaklega aðgang að því að mega njóta landsins, mundi það virka og skila tilætluðum árangri? Mér finnst það líka vera eitthvað sem við verðum að hugsa um og velta fyrir okkur. Mun frumvarpið til dæmis ná að uppfylla það markmið sem er sett í 1. gr. þess, þ.e. að stuðla að verndun á náttúru Íslands með þeirri uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða sem nauðsynleg er?

Í áðurnefndu fylgiskjali II, umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, segir einmitt, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu er gert ráð fyrir einu nýju stöðugildi hjá Ferðamálastofu vegna þessa og mun sá aðili sinna eftirliti ásamt öðrum starfsmanni sem er starfandi hjá stofnuninni í dag. Þegar horft er til þess að gert er ráð fyrir að erlendir ferðamenn á árinu 2014 nálgist eina milljón er vandséð hvernig þessi áform eiga að tryggja trúverðugt eftirlit á þessum tilteknu ferðamannastöðum sem væntanlega gætu skipt hundruðum sé litið til úthlutana úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til þessa.“

Hér er sem sagt ekki verið að tala um tíu, tólf ferðamannastaði eins og hæstv. ráðherra gerir heldur jafnvel um hundruð staða sem gætu fallið þarna undir. Í umsögninni er haldið áfram aðeins síðar, með leyfi forseta:

„Erfitt er að áætla með nákvæmum hætti hverjar tekjur ríkissjóðs af náttúrupassanum verða á komandi árum en þar skiptir meginmáli hver fjöldi ferðamanna verður og hversu vel mun ganga að innheimta gjald fyrir passann.“

Hér er gert ráð fyrir einu stöðugildi. Ég spyr því: Finnst fólki og hv. þingmönnum það almennt vera trúverðugt eða er verið að vanmeta gríðarlega þann mannafla sem þarf til að halda uppi eftirliti svo að kerfið geti mögulega skilað þeim árangri sem ætlast er til af því og hér sé verið um leið að vanmeta útlagðan kostnað sem fylgir því að reka kerfið? Við getum meira að segja búið okkur til dæmi sem er raunar nákvæmlega það sem fólk er farið að gera og að deila með sér á samfélagsmiðlum, því að sem betur fer þá eru fleiri en bara við sem sitjum hér inni sem velta þessum málum fyrir sér. Það er sem betur fer fullt af fólki sem hefur skoðun á þessu og er að spá í þetta. Hér er dæmi um það sem fólk er að deila með sér og er að spá í: Náttúrupassi kostar 1.500 kr., sektin fyrir að eiga hann ekki er 15 þús. kr. Segjum að 800 manns ferðist um þessi svæði á ári, hversu marga þarf þá að taka í tékk til þess að það „borgi sig“ frekar fyrir fólk að eiga passann en hitt?

Segjum að 80 þúsund manns yrðu stoppaðir af handahófi eða tíundi hver gestur, þá mætti engu að síður segja að það borgaði sig að taka áhættuna og greiða bara sektina. (Gripið fram í: …óheiðarlegir.) Og það að stoppa 80 þúsund manns er býsna tímafrek iðja, jafnvel þótt þessi eini nýi starfsmaður sem ráðuneytið reiknar með væri mjög iðinn við kolann.

Í umræðum um þetta mál í síðustu viku líkti hæstv. ráðherra framkvæmd náttúrupassans við stöðumæla á Laugavegi þar sem ökumenn geta vegið og metið hvort þeir kjósi að greiða lægri upphæð í stöðumæli eða hærri upphæð í sekt ef stöðumælavörður nappar þá. Og þetta var ágæt líking, finnst mér, enda erum við að tala hér um leikjafræði í sinni einföldustu mynd. Þessi hversdagslega leikjafræðispurning er vel þekkt úr nágrannasamfélögum okkar þar sem eru strætisvagnar og neðanjarðarlestir með miðaeftirlitsmönnum sem stundum láta sjá sig. Stjórnendur slíkra kerfa standa frammi fyrir tveimur leiðum, að hafa mjög öflugt og fjölmennt eftirlitskerfi þar sem líkurnar á að verða tekinn í tékk eru mjög miklar eða veikara og fámennara kerfi þar sem refsingarnar, sektirnar, fyrir þá fáu sem eru gripnir eru háar og því skapast fælingarmáttur. Mér sýnist að hér sé í rauninni ætlunin að gera hvorugt. Þess utan er reynslan af almenningssamgöngukerfum sem þessum sú að það getur verið erfitt að framfylgja sektargreiðslum nema gagnvart heimamönnum sem í okkar tilviki hér á Íslandi eiga að vera í minni hluta notenda passans. Mér finnst því í þessu samhengi eðlilegt að velta því upp og spyrja, af því að ég veit það einfaldlega ekki: Hvernig gengur nú þegar að innheimta sektir af fólki sem farið er af landi brott? Er líklegt að þetta muni hreinlega ganga upp sem kerfi?

Hæstv. forseti. Líkt og ég sagði í upphafi máls míns þá tel ég engan ágreining vera um það að nauðsynlegt sé að vernda náttúru Íslands. Við viljum öll vernda hana og stuðla að uppbyggingu ferðamannastaða, ég held að við séum öll sammála um að það sé okkur mjög mikilvægt til framtíðar. En líkt og ég hef rakið þá tel ég náttúrupassaleið hæstv. iðnaðarráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur ekki líklega til að ná þessum markmiðum. Í fyrsta lagi gengur hún á almannaréttinn og í öðru lagi finnst mér einfaldlega ekki trúverðugt að hún nái því markmiði að afla þeirra tekna sem nauðsynlegar eru til þess að við getum verndað og byggt upp ferðamannastaði.

Mín skoðun er því sú að það sé réttast að Alþingi falli algerlega frá þessari hugmynd og fari frekar aðrar leiðir til þess að afla nauðsynlegra tekna. Af þeirri ágætu umræðu sem hefur átt sér stað hér þá hugnast mér best fyrirkomulagið um gistináttagjald, að það sé betrumbætt og að gjaldið verði hækkað. Þar getum við einmitt horft til þess að slíkt gjald er innheimt og gjaldtaka er framkvæmd af ótalmörgum öðrum Evrópuríkjum, eins og hv. þm. Kristján L. Möller rakti til að mynda ágætlega í upphafi umræðunnar. Að sama skapi finnst mér koma vel til greina að skoða aðrar leiðir sem gætu þá verið færar, annaðhvort samhliða því eða til viðbótar við gistináttagjaldið, og mér finnst allt í lagi að skoða það hvort við eigum að leggja auðlindagjald á ferðaþjónustufyrirtæki, því að það eru jú þau sem nýta náttúruauðlindir, náttúruperlurnar, (Forseti hringir.) í hagnaðarskyni og því ekki nema eðlilegt að við finnum leið til þess að þau borgi eitthvert (Forseti hringir.) endurgjald fyrir þá nýtingu til samfélagsins.