144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:41]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo sannarlega rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að heiðarleiki fólks er mikill og flestir borga það sem þeir eiga að borga og svindla ekki. Mér finnst hins vegar mjög mikilvægt að þegar frá ráðuneyti kemur frumvarp sem þetta séu allir möguleikar teknir og vegnir og kostnaðarmetnir. Mér finnst það ekki vera nægilega vel gert hérna, það verði einhvern veginn ekkert úr því, ekki nægjanlega vel að því hugað hvort passinn muni virkilega skila okkur tekjum. Það er eðlilegt að það sé hreinlega reiknað inn í frumvarpið, hvort þetta sé talið líklegt til þess að færa okkur einhverjar tekjur og hvort fólk muni horfa til þess hvort það borgi sig að svindla. Þó svo að fólk sé almennt heiðarlegt finnst mér það vera ein af þeim breytum sem þarf að taka með í reikninginn.

Varðandi spurninguna um það hvort eitthvað í frumvarpinu eyði réttaróvissunni um það hvort innheimta megi gjald á ferðamannastöðum, nei, það er einmitt skilið eftir alveg galopið. Það er eitt af því sem mér finnst bagalegt, vitaskuld, vegna þess að ég mundi helst vilja sjá þeirri réttaróvissu eytt og það liggi ljóst fyrir að við ætlum að fara aðrar leiðir við uppbyggingu ferðamannastaða okkar og koma í veg fyrir skúravæðingu þar sem ólíkir aðilar innheimta ólík gjöld sitt á hvað.