144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það vill svo til að eignarrétturinn er í stjórnarskrá og stjórnarskráin er æðri öðrum lögum. Hv. þingmaður hefur eins og ég og aðrir hv. þingmenn skrifað eið að stjórnarskránni þannig að eignarrétturinn er æðri öðrum lögum. Það er dómstóla að dæma um það þegar hann stangast á við önnur lög.

Varðandi heiðarleikann. Þegar fólk sér að það á að borga 1.500 kr. í þeim tilgangi til þess að bæta aðstöðu sína, til þess að setja fjármagn í til að bæta aðstöðu við ferðamannastaði þá get ég ekki ímyndað mér að nokkur hafi á móti því. Mér þætti bara gaman að sjá þann erlenda ferðamann sem í rútunni til Reykjavíkur þegar sagt er við hann: Þú verður að kaupa ferðamannapassa ef þú ætlar að fara á þessa staði, neitar að borga 10 dollara eða rúmlega það. Mér þætti gaman að sjá það. Ég held nefnilega að það verði mikilli vilji til að borga, fyrir utan náttúrlega smánina ef menn eru teknir á staðnum og reknir burtu ef þeir hafa ekki borgað 10 dollara eða svo og þurfa að borga þá 100 dollara.

Við skulum ekki gleyma því að heiðarleikinn er almennur og mín reynsla í gegnum lífið, frú forseti, ég hef kynnst fullt af fólki í viðskiptum, 80% að mínu mati í gegnum mitt líf er heiðarlegt fólk sem vill borga sína skatta og skyldur og segir ekki eins og aðrir hv. þingmenn: Ég ætla mér að brjóta þessi lög. 80% er heiðarlegt fólk. Það mun borga þennan skatt refjalaust um leið og hann er innheimtur. Ég geri ráð fyrir að þetta verði væntanlega í rútum og hótelum og öðrum stöðum, þá verði erlendum ferðamönnum bent á að þeir þurfi að hafa svona passa ef þeir ætla að skoða náttúrufegurð Íslands.