144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:45]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, fólk er almennt heiðarlegt og vill borga sína skatta og skyldur. Ég sé samt ekki af hverju náttúrupassi ætti að lúta einhverjum öðrum lögmálum. Af hverju ættu atvinnurekendur sem t.d. selja gistingu í ferðaþjónustu ekki að vilja standa rétt og heiðarlega skil á sköttum og skyldum sem fylgja því t.d. að innheimta gistináttagjaldið? Er það einhvern veginn öðruvísi almenningur eða fólk sem rekur þá þjónustu? Ef við gefum okkur að fólk sé almennt heiðarlegt þá hlýtur það að ná yfir allt spektrúmið, ég giska á það.

Varðandi það hvort útlendingar séu til í að borga þetta gjald. Nú skal ég ekki segja. Mér finnst þetta í prinsippinu röng nálgun, þess vegna að hluta til hugnast mér hún ekki. Hins vegar er ég ekkert viss um það að útlendingarnir verði sáttir við það þegar þeir eru búnir að borga þetta almenna ríkisgjald að þurfa svo jafnvel að borga aftur á öðrum ferðamannastöðum í einkaeigu. Þá held ég að geti nú farið að þyngjast á þeim brúnin ef þeir þurfa að borga þúsund kall hér, fimmtán hundruð kall þar og guð má vita hvar það í rauninni endar.

Svo varðandi stjórnarskrána þá er ég ein af þeim sem hefðu mjög gjarnan viljað sjá ákvæði um náttúruauðlindir í stjórnarskránni og finnst þess vegna mjög dapurlegt að það hafi ekki tekist á sínum tíma að koma slíku ákvæði inn í stjórnarskrána. Ég ætla ekki að gefa upp alla von um að það verði einhvern tímann í framtíðinni, sem fyrst vonandi.