144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:47]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur prýðisræðu.

Hv. þingmaður fór mjög vel yfir málið, aðallega þó vankanta. Það er eðlilegt. Við hv. þingmenn eigum að fara yfir frumvörp með gagnrýnum huga og augum. Ég skildi hv. þingmann þannig að hún væri þó mest á því að fara þá leið sem er til staðar, sem er gistináttagjaldsleiðin. Ef við gefum okkur dæmi, þannig að ég útfæri spurninguna í dæmi — þó að þetta kerfi sé til staðar eru auðvitað vankantar á þeirri leið eins og hinni sem frumvarpið snýr að, sem er náttúrupassi. Þeir Íslendingar sem vilja sækja eigið land heim kjósa ódýran ferðamáta, gista á tjaldstæðum og vilja eyða jafnvel sumrinu þannig eins og staðan er í dag. Gefum okkur að fjölskyldan gisti í tvo mánuði, 60 daga, þá eru það 6.000 kr. á dag. Ég gef mér miðað við hvernig gistináttagjaldið hefur verið að þróast eða skila tekjum til að standa undir viðhaldi þá dugar það engan veginn til og er í engu hlutfalli eða samræmi við fjölgun ferðamanna. Ef við hækkum það gjald, sem við vitum ekki nákvæmlega hversu viðkvæmt er eftir eftirspurn, þá er sá sem vill kjósa þennan ódýra ferðamáta að borga 12.000 kr. sem er þá mun meira, og þeir sem sækja landið heim búa í dýrari gistingu. Hefur hv. þingmaður velt þessu fyrir sér?