144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Til að endurvekja traust á Alþingi þarf þingið að fara að þjóðarvilja og forustumenn í stjórnmálum að efna loforð sín. Í dag er enn einu sinni undirstrikað að meiri hluti landsmanna er andvígur því að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði dregin til baka og forustumenn Sjálfstæðisflokksins lofuðu því í öllum kjördæmum að fólk fengi að greiða atkvæði um framhald viðræðna. Það er löngu tímabært að Sjálfstæðisflokkurinn efni loforð sín og að fólkið í landinu fái að taka þessa stærstu ákvörðun um framtíð landsins.

Það hlýtur líka að vera orðið umhugsunarefni í íslenskum stjórnmálum þegar menn sjá að þriðjungur kjósenda Sjálfstæðisflokksins er andvígur fyrirætlunum formanns hans, Bjarna Benediktssonar, hvort það sé að verða þannig í íslenskum stjórnmálum að alþjóðasinnaðir hægri menn séu algerlega orðnir heimilislausir, að hér á Alþingi skorti orðið algerlega stjórnmálaflokk eða þingflokk sem tali fyrir sjónarmiðum þeirra fjölmörgu Íslendinga sem eru hægri menn en hafa líka trú á alþjóðasamstarfi, á því að efla viðskiptatengsl okkar og samstarf við aðrar vestrænar þjóðir. Er nema von að spurt sé.