144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vekja athygli á tillögum velferðarvaktarinnar um húsnæðismál. Velferðarvaktin skilaði niðurstöðum til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eyglóar Harðardóttur í lok janúar. Tillögur velferðarvaktarinnar fjalla meðal annars um að komið verði á húsnæðisbótum sem hafi það að markmiði að jafna stöðu þeirra sem eru á leigumarkaði og þeirra sem búa í eigin húsnæði. Eins og margir vita þá er kerfið þannig í dag að það eru bæði húsaleigubætur og vaxtabætur en ekkert jafnræði er á milli kerfanna hvað varðar umfang stuðnings við þessa tvo hópa og það þarf að bæta. Auk þessa er fjallað um í tillögunum að fjárhæðir húsnæðisbóta muni miðast við heildartekjur heimilis en ekki fjölda fullorðinna heimilismanna, en innkoma efnaminni foreldra skerðist oft verulega við það þegar börn ná 18 ára aldri.

Eins og fram hefur komið starfaði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála í velferðarráðuneytinu síðastliðinn vetur og skilaði af sér niðurstöðum síðasta vor. Síðan þá hefur verið unnið hörðum höndum að því að skrifa frumvörp er taka m.a. á húsnæðisbótakerfinu, nýju kerfi. Áætlað er að frumvörp þessa efnis komi til umfjöllunar í þinginu í mars og mikilvægt er að við náum að afgreiða það frumvarp og önnur er lúta að bættum húsnæðismarkaði áður en þing fer í sumarleyfi. Ég hvet alla til að skoða tillögur velferðarvaktarinnar og þær tillögur er verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála skilaði af sér síðastliðið vor en þarna er margar góðar tillögur að finna, margar góðar tillögur sem eru í leiðinni í frumvörp. Ég vona að við náum öll að vinna vel saman að því að þetta verði til bóta fyrir þá sem á þurfa að halda og samfélag okkar.