144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í gær gerðust þau merku tíðindi í íslenskri fjarskiptasögu að slökkt var á hliðræna dreifikerfi sjónvarpsins við formlega athöfn. Hæstv. innanríkisráðherra fékk það hlutverk að loka endanlega fyrir kerfið, sem má kannski segja að sé skemmtilegt tilbrigði við þá hefð að stjórnmálamenn opni hitt og þetta. Talsvert hefur verið fjallað um kosti hinnar nýju tækni og fæstir efast líklega um að um framför sé að ræða. Í frétt RÚV af málinu kemur fram að eftirleiðis verði eingöngu sent út á stafræna dreifikerfinu sem nái til 99,9% heimila. Það er hér sem hnífurinn stendur í kúnni. 99,9% er vissulega dálítið há tala en hún er ekki 100%.

Ég vitna í ummæli Strandamanns af einum samfélagsmiðlanna af þessu tilefni, með leyfi forseta:

„Óskaplega finnst mér leiðinlegt að fólk hafi verið að klappa fyrir þessu, hugsa að það hafi ekkert verið klappað á þeim sveitabæjum á Ströndum þar sem ekki næst lengur sjónvarp og engin svör að fá um hvort og hvenær eigi að bæta þar úr. Mér finnst mjög sérkennilegt og einkennilega fjandsamlegt að ekki hafi verið fundnar lausnir fyrir þá staði sem hafa haft sjónvarp síðustu áratugi áður en slökkt var á kerfinu.“

Það bregður óneitanlega skugga á fréttir gærdagsins að bætt sjónvarpsþjónusta við þorra landsmanna verði til þess að mjög fámennur hópur fólks sé nú sjónvarpslaus. Ég treysti því hins vegar og beini því til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að hún láti málið til sín taka og það verði fundin lausn svo lítill hluti landsmanna verði ekki sjónvarpslaus með öllu.