144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Sumarið 2013 var sagt frá því í fréttum að Ísland hefði brotið reglur Evrópuráðsþingsins þegar sendinefnd á okkar vegum var einungis skipuð karlmönnum. Samkvæmt reglum ráðsins hefði átt að skipa a.m.k. eina konu. Brynhildur Björnsdóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, spurði þá Karl Garðarsson, formann Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, hvers vegna hefði verið ákveðið að skipa nefndina einungis körlum þrátt fyrir að vitað hefði verið að það væri brot á reglum ráðsins. Hún fékk þau svör að ekki hefði náðst samkomulag milli þeirra flokka sem eiga fulltrúa í nefndinni um það í rauninni hver ætti að víkja úr sínu sæti og tilnefna konu í staðinn. Við vorum snupruð og misstum atkvæðaréttinn um tíma í framhaldinu.

Síðan gerðist það að Sjálfstæðisflokkurinn skipar konu sem aðalmann sem mér sýnist að hafi farið út einu sinni á fund og aldrei sótt fund á árinu 2014 og ekki sótt nefndarfundi utan þinga sem eru margir. Í skýrslum Íslandsdeildarinnar má sjá að karlarnir þrír eru mikið á faraldsfæti enda eflaust mjög mikilvægt starf sem fer fram á vegum Evrópuráðsþingsins og kannski vissara að hleypa konum þar ekkert að.

Settar hafa verið reglur um kynjakvóta á vegum Evrópuráðsþingsins og þá er það væntanlega ekki að ástæðulausu. Mér finnst mjög mikilvægt að við virðum þessar reglur. Mér finnst þetta mál eiginlega bara alveg glatað og okkur ekki til sóma, að menn hangi á sínu sæti eins og hundar á roði og neiti að gefa það eftir fyrir konu. Ég veit ekki til þess að í öðrum nefndum séu skipaðir varamenn sem taki svo alltaf sæti aðalmanna.

Ég vil spyrja formann Íslandsdeildarinnar hvort það sé ekki öruggt að það sem eftir lifir kjörtímabils verði þingkona virkur þátttakandi í þessu starfi Evrópuráðsþingsins. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki gert mér grein fyrir að evrópsk samvinna væri svona rosalega eftirsóknarverð.