144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ólíkt hafast menn að. Það er helst í fréttum frá því landi Króatíu að yfirvöld þar hafa ákveðið að leiðrétta skuldir heimilanna eins og það er kallað hér á landi. En öfugt við hér hafa yfirvöld í Króatíu ákveðið að afskrifa skuldir fátækustu heimilanna í landinu og koma þar með efnahagslífinu í betra ástand. Skilyrði þess að njóta skuldaafskrifta í Króatíu er að skuldirnar séu minni en 35 þús. króatískar kúnur, sem svarar til rétt rúmlega 0,5 millj. ísl. kr. Skilyrðið er jafnframt að viðkomandi hafi 1.250 kúnur eða minna í tekjur á mánuði, sem sagt innan við 20 þús. ísl. kr. Þetta eru lágar tölur en háar fyrir þeim.

Það vekur athygli að þessi aðgerð er fullkomin andstæða þess sem gert var á Íslandi þar sem opinberu fé var ráðstafað þannig að þeir fengu mest, þ.e. gátu átt von á mestri skuldalækkun, sem skulduðu mikið og áttu mestar eignir því að þeir höfðu þar af leiðandi ekki notið fyrri úrræða.

Þetta finnst mér að hv. stjórnarliðar mættu hugleiða, þessa gjörólíku nálgun stjórnvalda í Króatíu og á Íslandi. Þegar við bætast svo þessa dagana upplýsingar um misskiptingu auðs í þessu landi, ofan á þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fella sérstaklega niður allan auðlegðarskatt á ríkustu fjölskyldurnar, og þegar við bætast núna ábendingar alþjóðastofnana eins og OECD um það hversu skaðleg mikil misskipting gæða sé fyrir hagkerfið þá veltir maður því fyrir sér hvort enginn stjórnarliða sé til í að kynna sér að minnsta kosti þessi gögn og velta því jafnvel fyrir sér hvort ríkisstjórnin sé á réttri leið með áherslur sínar að þessu leyti.

Má ég þá minna á að hæstv. fjármálaráðherra talar gjarnan um að næsta verkefni í skattamálum sé að afnema þrepaskiptan tekjuskatt eða fletja hann að minnsta kosti út. Þurfa menn ekki aðeins að fara að hugsa sinn gang, herra forseti?