144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Til er fyrirtæki í opinberri eigu, Matís, sem er opinbert hlutafélag og brúin sem tengir vísindi og atvinnulífið. Hjá þessu merka fyrirtæki starfa margir af helstu sérfræðingum landsins í matvælatækni og líftækni, þ.e. matvælafræðingar, efnafræðingar, líffræðingar, verkfræðingar og sjávarútvegsfræðingar. Fjöldi starfsmanna er bæði með masterspróf og doktorspróf.

Það sem vakti hins vegar athygli mína og ég geri hér að umræðuefni er frétt þess eðlis að Matís ohf. og einkafyrirtæki hefðu sótt saman um og hlotið styrk úr Tækniþróunarsjóði upp á 45 milljónir frá árinu 2011. Það er gott og blessað, en það vill svo til að einn starfsmanna Matís er eigandi að þessu fyrirtæki og því hlýtur það að vekja upp vangaveltur þess eðlis hvort og þá hvernig hagsmunum annarra fyrirtækja sé gætt innan Matís þegar svo stendur á. Ég er ekki að gera því skóna að einhverju sé ábótavant í samvinnu eiganda þessa einkafyrirtækis, eigandans sem er starfsmaður Matís og Matís en ég hlýt að vekja athygli á því að það kallar á vangaveltur um hagsmunatengsl og þá hvernig önnur fyrirtæki í sama geira þurfi að sækja til fyrirtækisins um vottun, vöruþróun og annað í þeim dúr, virðulegi forseti.