144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýra ræðu. Ég vil segja það alveg skýrt að ég var ákaflega sammála mörgu. Hún talaði meðal annars um að hún hallaðist að því að fara einhvers konar blandaða leið. Ég er þeirrar skoðunar að það sé meira en einnar messu virði að skoða það. Sjálfur hallast ég æ meir að því að nota bara gistináttagjaldið, en ég segi það alveg skýrt að ég vil ná samkomulagi um þetta mál, blönduð leið er fín. Mér skildist á hv. þingmanni að hluti af þeirri leið ætti að vera að taka upp einhvers konar komugjöld. Mér finnst það alveg koma til greina. Að vísu tala menn um að þau yrðu eins konar landsbyggðarskattur af því að þau legðust á innanlandsflug. Ég hlustaði á fína ræðu hjá flokksbróður hv. þingmanns, hv. þm. Róberti Marshall, sem benti á að átta eða níu gjöld væru lögð á innanlandsflugið og einhver þeirra mætti afnema. Ég er sammála því. Eins og hefur komið fram í ræðum langflestra er þarna ákveðinn snertiflötur. Það er alveg hægt að ná samkomulagi um þetta mál án þess að ganga á almannaréttinn.

Mig langar að fá afstöðu hv. þingmanns til eins máls sem varðar þetta frumvarp. Í lykilgrein frumvarpsins, sem er 4. gr., segir bókstaflega að þeir sem eigi lönd þar sem eru náttúruperlur og kjósi að standa utan við náttúrupassann geti innheimt gjald. Fyrir mér yrðu algjör vatnaskil ef þetta yrði samþykkt í íslenskri löggjöf. Þar með væri búið að útkljá það sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu eftir ræðu að væri óútkljáð. Það væri með öðrum orðum búið að slá í gadda lagalega séð að þetta væri í lagi. Ég er alfarið á móti þessu. Mér þætti vænt um að fá viðhorf hv. þingmanns til þessa. Er hún á móti þessu? Er hún sammála mér um að frumvarpið heimili þetta, ef það verður samþykkt?