144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:22]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Eins og ég fór yfir í ræðu minni — hv. þingmaður hefur kannski brugðið sér aðeins frá — þá var þetta misræmi einmitt ein meginstoð þess sem ég fjallaði um. Þetta kom mér í sjálfu sér rosalega á óvart. Ég hélt að það ætti að leysa þetta aðgangsvesen allt með náttúrupassa. Munið þið ekki? Það átti að leysa það. Þetta frumvarp gerir það því miður ekki. Ég veit ekki alveg lagalegu hliðina á bak við það en ég er algerlega sammála hv. þingmanni að 4. gr. gengur ekki upp.

Af hverju ættu landeigendur Geysis að vilja koma undir regnhlíf hæstv. ráðherra um náttúrupassa? Hvaða hag hafa landeigendur af því? Ekki neinn. (Gripið fram í.) — Innheimtu, ég fór yfir það í ræðu minni rétt áðan það gæti verið eini kosturinn; það er alveg rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal sem kallar hér fram í. Landeigendur hafa enga tryggingu fyrir því að fá eitthvað út úr þessum sjóði, enga tryggingu fyrir því að fá eitthvað út úr náttúrupassanum. Þeir verða bara að bíða í von og óvon. Þeir þurfa ekki að bíða í von og óvon með eigin stöðumælaverði um allt. Ég tek það fram að ég held að það sé ekki heillavænlegt heldur að hafa fyrirkomulagið þannig. Til að hnykkja á því þá átti náttúrupassinn að koma í veg fyrir slíkt en þessi útfærsla gerir það svo sannarlega ekki, því miður.