144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mikið gladdi þessi ræða mig. Ég er þá ekki einn um að hafa talið ræður hæstv. ráðherra, þar á meðal ræður sem hún flutti hér um miðjan desember, allar hníga að því að náttúrupassinn og þetta frumvarp myndi útkljá þetta mál í eitt skipti fyrir öll. Við rifum okkur niður í rass hér út af því sem var að gerast við Geysi og fyrir norðan. Þá kom hæstv. ráðherra og vísaði jafnan til þessa frumvarps sem þá var fyrirhugað. Ég taldi alltaf að það ætti að hreinsa borðið og við gætum tekist á um einhverja lausn sem yrði varanleg. Þegar hæstv. ráðherra leggur fram frumvarpið þá ýtir hún beinlínis undir þetta í 4. gr. Í fyrsta skipti sé ég í löggjöf að beinlínis er gert ráð fyrir lagalegri heimild fyrir þá sem eiga eignarlönd með náttúruperlum að rukka inn fyrir þau.

Það sem mér þykir verst og ætla ekkert að spyrja hv. þingmann út í er að hæstv. ráðherra komi svo hingað og segi að málið sé enn þá óútkljáð. Hún er að útkljá það.