144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:27]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og jafnan er þingmaðurinn málefnalegur í umfjöllun sinni og ég kann vel að meta það.

Það voru nokkur atriði sem hv. þingmaður nefndi. Fyrst aðeins um að náttúran sé látin reka á reiðanum og að við látum hana bíða á meðan við fáum niðurstöðu í þetta mál, þá verð ég nú að svara þingmanninum fullum hálsi. Þannig er það að sjálfsögðu ekki. Í fyrra voru veittar á milli 700 og 800 milljónir til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Aldrei áður hafði jafn mikið verið lagt í þann sjóð á einu ári og til slíkra verkefna. Það er því ekki sanngjarnt að segja að við séum ekki að gera neitt á meðan.

Þetta mál er ekki að hefjast núna. Þegar sagt er að ég hafi tekið tíma í það verð ég að svara því til að auðvitað hefði ekki átt að koma til þess árið 2015 að sá ráðherra sem færi þá með málaflokkinn sæti uppi með þetta mál óleyst. Það væri alveg eins hægt að fara ár og jafnvel áratugi aftur í tímann og segja að þeim tíma hefði ekki verið vel varið.

Einnig vil ég segja varðandi það sem þingmaðurinn sagði um þá hrifningu sem hún fyndi fyrir því að fara einhvers konar blandaða leið að ég er ósammála blandaðri leið að því leytinu til að allar þær leiðir sem fela í sér að taka hluta hér og hluta þar og hluta annars staðar bjóða upp á flækjustig. Það mætti hafa áhyggjur af því að það yrði ekki (Forseti hringir.) mjög skilvirkt. Það eru til dæmis margir sem innheimta gistináttagjaldið og (Forseti hringir.) gistináttagjaldið er einn af óhagkvæmustu (Forseti hringir.) skattstofnum sem til eru (Forseti hringir.) vegna þess að það eru svo margir innheimtuaðilar fyrir lága upphæð.