144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:29]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Ég er með lausn á þessu með gistináttagjaldið: Við skulum bara hækka upphæðina. — Fyrirgefið, ég hefði átt að byrja á því að þakka andsvarið.

Varðandi flækjustigið sem hæstv. ráðherra nefndi: Er þetta frumvarp ekki flókið? Er það ekki flókið í framkvæmd og umsýslu? Hvað mun það kosta? Ég veit það ekki því að það kemur ekki fram í frumvarpinu. Hvað mun til dæmis kosta að halda úti eftirliti? Hvað mun umsýsla kosta hjá þeirri stofnun sem mun sjá um þetta? Hvað þarf margar manneskjur í það? Hvað þarf að manna marga ferðamannastaði? Það er eiginlega ekki hægt að kafa almennilega ofan í þetta og gagnrýna, eins og við þurfum, því að of mörgum spurningum er ósvarað.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra nefndi með úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða þá rekur mig minni til þess að vandamálið þar, t.d. í fyrra, hafi verið að úthlutanirnar hafi ekki einu sinni verið nýttar alls staðar. Það er að stórum hluta vegna þess að sveitarfélögin eða landeigendur eða hverjir sem það eru sem eiga að koma að þessu þurftu að koma til helminga með fjármagn á móti og það er ekki í boði alls staðar. Þá féllu verkefnin dauð á meðan, ekki satt? Það fyrirkomulag gengur ekki upp.