144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir alveg ágæta ræðu. Hún var uppbyggileg, jákvæð og lausnamiðuð. Þannig hefur umræðan ekki alveg verið að öllu leyti hingað til, ekki að öllu leyti.

Hv. þingmaður talaði um blandaða leið. Hún ræddi líka um gistináttagjaldið og komugjöld. Báðar þessar leiðir eru ræddar í frumvarpinu, í greinargerðinni og getið um kosti og galla. En það er eitt sem vantar í frumvarpið, sem ég hef nefnt hérna líka, að þegar menn velja sér land til að ferðast til sem ferðamenn, hvað skoða þeir fyrst, herra forseti? Kostnaðinn við fargjaldið. Hvað skoða þeir næst? Gistingu. Þetta held ég að sé svona bara almennt séð þegar menn velja sér land. Það er ekki þannig að sú gífurlega aukning sem verið hefur á ferðamannastraumi til Íslands sé eitthvert náttúrulögmál og muni halda áfram um alla framtíð. Við gætum lent í því að þetta fari að dragast saman og þá þurfa menn að fara að horfa á kostnaðarliðina við komugjöldin, þ.e. flugið, og við gistinguna, þ.e. gistináttagjaldið. Þá er nefnilega gott að hafa gjald sem gerir hvorugt, sem er aðgöngumiði eins og að söfnum og slíku, fólk telur það ekki með, það kemur eftir á. Þetta þurfa menn að skoða þegar þeir meta hvernig þetta virkar til framtíðar. Sú leið sem hér er rædd er einmitt það, þ.e. aðgöngumiði að söfnum, í þessu tilfelli náttúrunni.

Ég held að hv. nefnd, sem hv. þingmaður á sæti í, ætti að skoða það með jákvæðum huga hvort þetta sé ekki besta leiðin til framtíðar gagnvart markaðssetningu ferðamannaþjónustunnar, og að hitt hvort tveggja geti dregið úr ferðamannastraumi.