144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Verðteygni til dæmis ferða er örugglega mjög háð verðlagi á ferðinni og síðan á gistingunni. Svo koma aðrir þættir inn í. Af hverju er svona gífurleg aukning í ferðamannaþjónustu? Það er vegna þess að Ísland fékk mjög neikvæða auglýsingu um allan heim þegar Eyjafjallajökull stöðvaði fólk á flugvöllum um allan heim, af alls konar stéttum og kynþáttum. Þetta var mjög mikil og mögnuð neikvæð auglýsing og hún virkar þótt hún sé neikvæð. Ísland varð allt í einu hugtak. Þess vegna komu menn til Íslands, en þegar þeir eru búnir að ákveða að fara til Íslands eða einhvers annars lands þá koma hinir þættirnir, verðteygnin vegna fargjalda og vegna gistingar. Þá getur nefnilega verið varasamt að hlaða of miklum kostnaði á það með skattheimtu.