144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:47]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki sérstaklega verið að mæla þessari leið bót umfram aðrar leiðir. Ég hef hins vegar dregið fram ákveðinn tvískinnung sem hefur mér þótt gæta í málflutningi hv. þingmanna sem hafa eindregið lagst gegn þessari leið. Ég get alveg prívat og persónulega fallist á að þessi leið sé ýmsum takmörkunum háð. Ég tel að aðrar leiðir séu betri, eins og til dæmis þær sem ég lýsti áðan, að horft verði til fjármögnunar og uppbyggingar á þessum svæðum í hverju tilfelli fyrir sig.

Hvað almannaréttinn varðar erum við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon væntanlega sammála um að á sumum þessara staða, sem við skulum nefna hér náttúruperlur eða vinsæla áningarstaði ferðamanna, er svo komið að þar er nauðsynlegt að byggja upp, það má orða það þannig að raska náttúrunni til hagsbóta fyrir ferðamanninn. Það hefur verið gert með lagningu göngustíga, lagningu útsýnispalla og þar fram eftir götunum. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður telji að það sé óþarft. Ef við erum sammála um að þessar aðgerðir séu nauðsynlegar situr sú spurning eftir: Hver á að greiða fyrir það? Þetta var auðvitað ekkert vandamál áður en milljón ferðamenn streymdu til landsins, sem verða mögulega tvær milljónir innan skamms. Spurningin er bara: Hver á að greiða fyrir þetta? Þar greinir okkur hv. þingmann kannski á hugmyndafræðilega. Ég tel útilokað að velta þeim kostnaði yfir á íslenska skattgreiðendur og að greiðslur til þess háttar uppbyggingar komi úr ríkiskassanum ár eftir ár. Ég tel að það standi þeim næst að greiða fyrir þessa uppbyggingu sem fara inn á þessa staði og njóta náttúrunnar.