144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem gerir mig hugmyndafræðilega mest andvígan þessari nálgun er annars vegar markaðsvæðing náttúrunnar sem mér finnst vera falin í þessu og hins vegar skerðing almannaréttarins. Svo kemur til viðbótar að þetta er óframkvæmanleg aðgerð eins og hún er lögð upp í frumvarpinu, en það er önnur saga. Þó að ferðamönnum hafi vissulega fjölgað hér mjög mikið er það ekki nýtilkomið að menn átti sig á því að það þarf að búa náttúruna undir að taka við vaxandi fjölda ferðamanna. Um 1990 var unnin heilmikil stefnumótunarvinna í því sem þar með er orðin 25 ára gömul, þar sem menn lögðu einmitt áherslu á að það yrði að fara að taka umhverfismálin föstum tökum í þó þetta vaxandi grein sem ferðaþjónustan var þá þegar, og að afla þyrfti til þess tekna svo hægt væri að gera ráðstafanir. Göngustígar eru ekki eitthvert spánnýtt fyrirbæri á Íslandi. Um tíma var það þannig að 10% af sölutekjum Fríhafnarinnar í Keflavík runnu í ferðamálin, m.a. til umhverfismála á því sviði. Það er til dæmis fyrirkomulag sem er ekkert endilega galið. Með vaxandi fjölda og vaxandi verslun þarna suður frá koma tekjur.

Að nálgast þetta út frá lögaðilum og rekstraraðilum í greininni er strax bara allt annað mál. Þá erum við að færa okkur í áttina að því sem til dæmis Nýsjálendingar hafa gert, að þeir sem gera út á náttúruna, þeir sem reka starfsemi sem tengist því að skoða náttúruna og fara um hana þurfa að skrá sig og greiða gjald. En þar er andlagið ekki einstaklingurinn og þar með ekki heldur nýsjálenskir ríkisborgarar, enda þekki ég það til í því landi að ég held að þeir mundu seint láta bjóða sér að þurfa að fara að ganga um með passa ef þeir ættu að ferðast um hálendi Suðureyjar eða eitthvað þar fram eftir götunum.

Já, það eru ákveðnir staðir á Íslandi þar sem ástandið er alvarlegt en veruleikinn er sá að Ísland er allt ein náttúruperla. Hvernig ætla menn að draga mörkin til dæmis á öllu miðhálendi Íslands? Það er allt fágætt, þessi víðerni eru það. Þess vegna er það að mínu mati alröng nálgun (Forseti hringir.) að horfa á það að fara svona leið og það á heldur ekki að fara söluhliða- og söluskúraleiðina á einhverjum afmörkuðum stöðum. Það á að nálgast þetta á almennum forsendum.