144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún ber óskaplega umhyggju fyrir Sjálfstæðisflokknum (Gripið fram í: Hver hefur það ekki?) og ég þakka það. Ég held að hann geti alveg staðið án þessarar umhyggju, en allt í lagi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Í Grágás er almannarétturinn tryggður. Í náttúruverndarlögum er réttur náttúrunnar tryggður. Þetta rekst á. Hefur Grágásarákvæðið verið tekið úr sambandi með náttúruvernarlögunum? Menn mega til dæmis ekki ganga yfir mosaþembur nálægt Lakagígum, þar eru óskaplega merkilegar mosaþembur og þar mega ekki nema 10, 20 manns labba í senn því að annars eyðileggjast þær. Hvernig er með almannaréttinn? Getur maður gengið þar um með Grágás í hönd og sagt: Nú ætla ég að ganga hér af því ég er Íslendingar og hef búið hérna svo lengi að ég á rétt á því?