144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður viti það nú, það sé honum vel kunnugt að almannarétturinn er ekki fortakslaus réttur til þess að vaða um landið eins og hverjum sýnist. Það hefur aldrei verið þannig. Almannarétturinn snýst þvert á móti um að almenningi, einstaklingum, sé heimilt að ganga um landið í sátt við landið — með því að taka ekki meira af því en maður gefur til baka, með því að skila því til komandi kynslóða eins góðu eða betra en við tókum við því. Það er almannarétturinn. Almannarétturinn er ekki réttur til ágangs, yfirgangs eða frekju. Almannarétturinn er réttur til þess að lifa í sátt við náttúruna.