144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst bara skemmtilegt að eiga í orðaskiptum við hv. þm. Pétur Blöndal þegar hann ber blak af einhverjum eftirlitsmönnum sem rukka fólk um 1.500 kr. um landið. Mér finnst það einhvern veginn pínulítið út fyrir það sem ég hélt að ég gæti lent í hér í þingsal. Ég hefði haldið að hv. þingmanni fyndist töluverður munur á því hvort um væri að ræða sérstaka menn í einkennisbúningi sem gengju á eftir fólki um allar koppagrundir og spyrðu hvort það væri með náttúrupassa og opinberu eftirliti með skattskilum. Ég hélt að hv. þingmanni þætti þar nokkur munur á. Það kemur mér á óvart ef svo er ekki.

Það er rétt sem kemur fram í máli þingmannsins að svæði þola mismunandi álag. Það er flókið mál. Náttúruvernd þarf að koma þar að og skilgreina hvenær sé komið að þolmörkum. Það er eitt af því sem ég nefndi í ræðu minni (Forseti hringir.) áðan að frumvarp hæstv. ráðherra kæmi ekkert inn á.