144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir snarpa ræðu hv. þingmanns og tek undir með hæstv. ráðherra, hún var á köflum dramatísk, þó ekki líkt því eins dramatísk og sú ræða sem hv. þingmaður flutti fyrr í dag og var örstutt.

Hv. þingmaður virðist nokkuð föst á gistináttaleiðinni og það hefur komið fram í ýmsum andsvörum mínum að ég hallast mjög að henni. Ég hef hins vegar sagt það alveg skýrt að til málamiðlunar er ég alveg til í að reyna að finna einhvers konar blandaða leið. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um afstöðu hennar, eftir atvikum VG ef flokkurinn hefur mótað sér stefnu um blandaða leið.

Annað sem mig langaði til þess að spyrja hv. þingmann um varðar 4. gr., sem er lykilgrein ásamt þeirri 10. í þessu frumvarpi. Telur ekki hv. þingmaður nokkuð skýrt að sú grein opni og ekki bara opni heldur bara beinlínis ýti undir það að þeir sem eiga náttúruperlur í einkaeign (Forseti hringir.) taki upp að rukka aðgangseyri að þeim? Liggur það ekki nokkuð skýrt fyrir eftir að þetta frumvarp er komið fram að það er vilji þessa (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra?