144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Gistináttagjaldið gefur um 250 milljónir á ári, jafn hlægilega lágt og það er og illa útfært, flatt gjald upp á 100 kr. Ef það væri útfært eins og það er yfirleitt í löndunum í kringum okkur, væri um 1–4 evrur eftir því hversu verðmæt gistingin er, eins og ég var að leggja til, við færum kannski í 250–300 kr. á hótelgistingu, sem almennt er talsvert dýrari en gisting á gistiheimilum eða farfuglaheimilum, þá eru það svona 2 evrur. Það er það sem menn eiga að venjast og er að ryðja sér mjög víða til rúms.

Varðandi það að svört atvinnustarfsemi sé í ferðaþjónustu og þess vegna megi ekki hækka gistináttagjaldið, af hverju var þá hv. þingmaður að standa að því að hækka vask á gistingu núna fyrir nokkrum vikum? Skilar það af sér úr svartri starfsemi? Nei. Það má þá nota öll þessi rök gagnvart öllum sköttum sem greinin greiðir, og 100 eða 300 kr. í gistináttagjald breyta engu um það, borið saman við t.d. miklu hærri tölur sem eru í vaskinum. Menn verða að takast á við það vandamál með öðrum hætti en þeim einum að segja: Nei, við getum enga skatta hækkað á ferðaþjónustu af því að það er eitthvað af starfseminni svart. Þá hefði hv. þingmaður ekki átt að styðja hækkun á vaski á gistingu. Það þarf ekki svona málflutning til hér í salnum.

Varðandi farseðlaskatta nálgast ég þetta út frá því að það sem væri skynsamlegt og rökrétt að gera er að leggja slíkt gjald á á háannatímanum, „high season“-gjald, ef ég má sletta því, virðulegi forseti, háannagjald. Þá er náttúran viðkvæmust, þá er miðhálendið opið og þá kemur mesti fjöldi ferðamannanna. Ísland er í grófum dráttum uppselt á sumrin. Við hvað er hv. þingmaður hræddur? Þó að það drægi úr komum ferðamanna í júlí um 0,2% vegna þess að það væri komið örlítið komugjald, væri það heimsendir? Nei. Það gæti stuðlað að því að jafna aðeins dreifingu ferðamannanna innan ársins. Það var hér einmitt ágætur þingmaður, flokkssystir hv. þingmanns, að tala um að okkur vantaði stýritæki til að reyna að dreifa (Forseti hringir.) álaginu betur. Það gætum við meðal annars gert með því að hafa (Forseti hringir.) komugjald á farseðlum á háönninni sem félli svo niður yfir veturinn.