144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ágætt að fá þessa upprifjun um flokkunina sem var á gistináttagjaldinu vegna þess að ég sagði það í fyrri ræðu minni um þetta mál, og kem betur að því í næstu ræðu, að eftir þessa yfirferð og eftir að hafa lesið þessi gögn og hlustað á rök og mótrök þá hef ég staðnæmst einna helst við gistináttagjaldið. Ég segi það vegna þess að þegar við skoðum hvernig þetta er framkvæmt í ýmsum borgum í kringum okkur sem Íslendingar ferðast til þá er það mjög vel útfært.

Nú þekkir hv. þingmaður það sem fyrrverandi ráðherra að hann og við höfum þurft að eiga samskipti við Eftirlitsstofnun Evrópu um framkvæmd á þessu. Og þá er spurningin sú — vegna þess að í gögnum frá ráðuneytinu er ýmislegt fundið því til foráttu að taka komu- og brottfarargjöld o.s.frv. — er gistináttagjaldið eins og það er framkvæmt víða í Evrópu þá ekki leiðin sem flest þjóðlönd eru að snúa sér að? Er það þá ekki leiðin að mati hv. þingmanns sem eftirlitsbatterí úti í Evrópu mundi samþykkja að útfæra hér?