144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er held ég hafið yfir allan vafa að gistináttagjöld getum við lagt á, mér liggur við að segja eins og okkur sýnist. Mér er ekki kunnugt um að gerðar hafi verið neinar athugasemdir við það gjald sem hér er lagt á nú. Það blasir hreinlega við þegar maður ferðast til Evrópu þá er það að verða næstum að segja reglan frekar en undantekningin að maður borgi eitthvert slíkt gjald og sums staðar eru það fleiri en eitt. Það er ýmist fast gjald í evrum og oft þá í flokkum eftir því hve dýr gistingin er, það frá svona einni, tveimur, ég þekki nú hvergi lægra gjald en eina evru, held ég, og upp í fjórar, sex, eða það er hlutfallslegt alveg frá 0,5% og upp í 5,5% af gistingunni að tekið er í sérstakt borgargjald eða umhverfisgjald af einhverju tagi, þannig að það gætum við alveg sannarlega gert.

Ég tel að við getum að sjálfsögðu líka tekið einhvers konar komugjöld eða farseðlagjöld, en það er augljóst mál að þar þarf útfærslan að standast þær kröfur sem á okkur gætu verið gerðar frá EES, til dæmis að það væri almennt og þar með talið að að einhverju leyti þyrfti það að taka til innanlandsflugsins. (Forseti hringir.) Ég get ekki lofað því að frumvarpið á sínum tíma hefði sloppið í gegnum nálarauga með gjaldflokkum eftir lengd flugferðar en það var áhugaverð tilraun að reyna.