144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti ræða hv. þingmanns vera ákaflega jákvæð, hann kom með margar leiðir sem hægt væri að vinna úr og það var að vonum vegna þess að það má kannski segja að það verkefni sem við stöndum frammi fyrir og felst í því að geta tekið á móti miklum og vaxandi fjölda ferðamanna rekur sig allt aftur til hans tíðar sem fjármálaráðherra. Það var hann og við nokkur sem á þeim tíma settum milljarð kr. í að reyna að laða að erlenda ferðamenn.

Það kemur ákaflega skýrt fram og er gaman að lesa það í greinargerð með frumvarpi hæstv. ráðherra að fjölgunin tengist nákvæmlega tveimur verkefnum sem við stóðum fyrir, þ.e. Inspired by Iceland og hins vegar Ísland allt árið, og fróðlegt að sjá að mest er fjölgun í vetrarmánuðunum, febrúar, desember og mars.

Þær leiðir sem hv. þingmaður lagði til voru ýmsar. Mig langar til að spyrja hann að einu sérstaklega. Hann talaði um að það væri auðvelt að hækka gistináttagjaldið þannig að það gæfi 400–500 millj. kr. En ég spyr hv. þingmann: Má ekki fara þá leið sem hv. þm. Kristján L. Möller reifaði hér í upphaflegu ræðunni sinni og fólst einfaldlega í því að fjórfalda gjaldið? Er eitthvað að því ef það er gert á þann hátt sem menn hafa hér reifað, þ.e. að það sé stigskipt og taki mið af verðmæti gistingarinnar? Það væri gaman að fá viðhorf hv. þingmanns til þess.

Í annan stað: Ég heyri að þingmenn gera lítið úr þeirri gjaldtöku sem gæti falist í því að taka beinlínis gjald fyrir veitta þjónustu eins og til dæmis bílastæði og einnig hreinlætisaðstöðu. Hvað telur hv. þingmaður, af því að hann er svo góður í hugarreikningi, að væri hugsanlega hægt að taka inn með þeim hætti? Ég var auðvitað að fiska hér eftir blandaðri leið. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að fara þessar leiðir.

Síðan langar mig aðeins til að spyrja hv. þingmann og hef engan tíma: Eru komugjöldin ekki landsbyggðarskattur?