144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að heildarveltan í gistingu — ef við tökum bara heildarveltuna í gistingu og útfærðum gistináttagjald sem væri hlutfallslegt, það væri auðvitað best — sé miklu meira en nóg til að 700–1.000 milljarðar í gistináttagjald mundu ekki setja neitt á hliðina. Ég vísa þar í rannsóknir og gögn sem menn hafa unnið þegar þeir voru að skoða verðþolið gagnvart hækkun virðisaukaskatts á gistingu. Umtalsverð hækkun virðisaukaskatts langt umfram það sem gistináttagjald mundi nokkurn tíma hafa í för með sér — það væri ekkert óskaplega mikið sem menn reiknuðu með að það mundi daga úr, þannig að út af fyrir sig held ég að svigrúmið sé talsvert til staðar, sérstaklega ef flokkunin eða hlutfallsleg álagning væri þannig að þetta væru talsvert hærri fjárhæðir en eru í dag á dýru gistingunum, á hótelherbergin sem komin eru upp í fleiri tugi þúsunda á sumrin. Þar er náttúrlega hundraðkall eða fimmhundruðkall orðin mjög lítil fjárhæð.

Ég tel að bílastæðagjöld gætu skilað býsn af fjárhæðum. Við skulum bara ímynda okkur Hakið við Þingvelli þar sem nú er verið að stækka bílastæðin á kostnað ríkisins og leggja á þau bundið slitlag. Eigum við að giska á að það komi 100 rútur og leggi við Hakið á góðum degi, ekki minna, kannski 200; þúsundkall á rútuna, 100–200 þús. kr. á dag bara í stæðagjöld fyrir rútur. Hvað er að því að 60–70 manna rúta, sem leggur í einn til tvo tíma á bílastæði sem ríkið hefur þurft að byggja við Hakið, borgi fyrir það og að menn borgi fyrir að leggja bílnum sínum þar rétt eins og menn gera þegar þeir leggja þeim hér í borginni? Við gætum verið að tala um talsverðar fjárhæðir, held ég, innan fárra ára þegar búið væri að byggja slík bílastæði og taka þannig gjald á nokkrum fjölsóttum ferðamannastöðum. En ég skil ekki alveg spurninguna um að komugjöldin væri sérstakur landsbyggðarskattur og vona að hv. þingmaður útskýri það fyrir mér í seinna andsvari sínu þannig að ég geti svo svarað aftur.