144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar menn hafa verið að tala um þá leið að setja upp það sem ég kalla komugjöld, sem hv. þingmaður talar um sem farseðilsgjöld, þá hafa menn bent á að þeir sem eiga heima á landsbyggðinni yrðu að greiða slík gjöld. Það liggja fyrir dómafordæmi, held ég, um að það er ekki hægt að undanþiggja innanlandsflugið frá því. Ég segi nú alveg hreinskilnislega við hv. þingmann að það er ein af þeim röksemdum sem hafa hrinið á mér. Þær eru að vísu tvær en ég ætla að láta vera að fara út í hina.

Þessi röksemd að það mætti segja að komugjöldin legðust þá kannski með óeðlilegum þunga á þá sem þurfa mest að notfæra sér innanlandsflugið — það eru náttúrlega íbúar landsbyggðarinnar og af þeim sökum væri þetta kannski ranglátt. Þetta eru sterk rök, finnst mér, en hv. þingmaður kann að vera annarrar skoðunar. Nú veit ég að hann er mikill landsbyggðarsinni, þannig að gaman væri að heyra viðhorf hans til þess.