144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Blönduð leið þýðir tvær leiðir eða þrjár sem þýðir aukið flækjustig. Það er kannski það sem þarf að skoða sérstaklega, hvað kostar flækjustigið? Hvað kostar það að innheimta gistináttagjald og komugjöld og hvaða áhrif hefur það á verðteygni þjónustunnar sem við erum að veita? Það er ekki þannig að það verði alltaf 20–30% vöxtur í ferðaþjónustunni, þetta er ekkert náttúrulögmál. Þetta getur allt í einu gengið til baka og þá munu menn kvarta undan komugjöldum sem hækka farmiðana og kvarta undan gistináttaskatti sem hækkar sérstaklega ódýra gistingu. Ég held að hv. nefnd ætti að skoða eina leið og taka afstöðu til þess hvaða leið hún vill fara.