144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það eiginlega dapurlegt að hv. þingmaður sem hefur lengsta þingreynslu ætli ekki að fara að lögum. Segjum að hv. nefnd komist að niðurstöðu og sú niðurstaða verði náttúrupassi og það verði samþykkt hér á Alþingi, þá er hv. þingmaður búinn að lýsa því yfir að hann ætli ekki að fara að lögum. Það finnst mér vera mjög alvarleg yfirlýsing og ég held að hv. þingmaður ætti nú að skoða hug sinn.

Ef honum er svona óskaplega kært að geta gengið sem Íslendingur, væntanlega sem íslenskur skattgreiðandi eða sá sem fellur undir íslensk skattalög um Ísland, skulum við setja það inn í lögin að búa til sérstakan persónuafslátt upp á 1.500 kr. sem menn geta notað til greiðslu á náttúrupassa og geta gert það hvar sem er. Það er þá hægt að vísa í það, ég er með þessa kennitölu, er skattgreiðandi og þarf því ekki að borga. Ég skal lofa því að koma þeirri ábendingu til hv. nefndar, sem yrði þá væntanlega efnahags- og skattanefnd, sem mundi fjalla um það og koma með þá breytingu, ef það er svona óskaplega mikið mál að borga 1.500 kr. á þriggja ára fresti.