144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Bara til að það sé á hreinu þá hef ég ekki haldið því fram úr þessum ræðustól að ég ætli vísvitandi að brjóta lög sem ég tel rétt dæmd vera. Það sem ég sagði hér sennilega fyrstur manna í nóvember eða desember var að ég mundi aldrei sjálfviljugur og baráttulaust borga fyrir það að fá að horfa á náttúruna eða fara frjálsri för um landið. Ég mundi fara með það mál til enda. Ég mundi mótmæla því ef ætti að fara að krefja mig um slíkan passa, ég mundi neita að borga sekt. Ég mundi frekar sitja hana af mér í fangelsi og ég mundi fara fyrir dómstóla með það að svona takmörkun á ferðafrelsi mínu stæðist ekki. Það er annað en að segjast ætla að brjóta lög sem hafa verið rétt dæmd og gild svo að því sé haldið til haga.

En ég velti því auðvitað fyrir mér, þegar hv. þingmaður og fleiri tala af þessari léttúð um almannaréttinn, hvort við séum kannski komin að gamalkunnugu deilumáli stjórnmálanna sem hefur geisað um aldir, þ.e. afstöðunni til einkaeignarréttarins annars vegar og almannaréttarins hins vegar; þess að menn geti nokkurn tíma átt nokkurn skapaðan hlut saman eða að nokkur hlutur megi nokkurn tíma tilheyra mönnum sameiginlega og félagslega. Ég lít á almannaréttinn sem óaðskiljanlegan hluta af því sem tilheyrir sameiginlega kynslóðunum sem búa í landinu.