144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er nú að bera í bakkafullan lækinn að fara yfir alla þá mörgu ókosti sem eru við þetta mál sem nú hefur tekið eina þrjá daga af þeim fáu dögum sem eftir lifa af þessu þingi, einvörðungu í fyrstu umræðuna sem er kynningarumræðan. Það er augljóst þó að skiptar skoðanir séu um málið að viðbúið er að 2. umr., sem er meginefnisræðan um málið, mundi taka býsna mikinn tíma hér á vormánuðum ef ætlunin væri að ljúka málinu á þeim tíma. Það vill hins vegar svo til að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir því að þetta fari að skila neinum tekjum fyrr en eftir allnokkurn tíma. Það er svo sem engin nauðsyn að ljúka því á vorþinginu og kannski erfitt að sjá eftir þá miklu gagnrýni sem frumvarpið hefur sætt frá þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum á þinginu að samstaða náist um einhverja eina lausn á því á þeim stutta tíma sem eftir er af þessu þingi.

Það er allt of seint að málið skuli ekki koma inn fyrr en núna eftir yfirlýsingar hæstv. ráðherra þegar í upphafi kjörtímabilsins um að tekið yrði strax á því. Það var unnið talsvert í málinu á síðasta kjörtímabili og er í raun synd að sú leið sem þá hafði verið mörkuð skyldi ekki nýtt betur og strax af núverandi ríkisstjórn, einkum eftir að það varð niðurstaðan úr samræðum við greinina sjálfa, ferðaþjónustuna, að atvinnugreinin sjálf, stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar, ályktaði sérstaklega um það að nýta skyldi í þessum tilgangi þá leið sem opnuð var á síðasta kjörtímabili, þ.e. gistináttagjaldið. Það ætti ekki að búa til nýja skattheimtu, ekki að búa til nýja leið heldur nýta einfaldlega það kerfi sem fyrir er, það eftirlit sem fyrir er, þann skatt sem fyrir er og hækka þá fjárhæð sem þar væri verið að taka í gjöldum og gera hugsanlega á því einhverjar lítils háttar innri breytingar til samræmis. Það hefði verið langeinfaldasta lausnin á þessu viðfangsefni og hefði getað tekið gildi strax og farið að skila miklu uppbyggingarstarfi á þessum mikilvægu náttúruperlum okkar þegar í stað.

Í stað þess að fara þá einföldu leið, þá leið sem greinin sjálf lagði til og þá leið sem hefði ekki falið í sér neina flækju í skattkerfinu, engan kostnað við nýtt kerfi eða aðra slíka skavanka, þá valdi ráðherrann af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að koma inn með nýja leið sem í raun og veru verður ekki farin að virka að neinu gagni, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason fór hér ágætlega yfir, fyrr en kjörtímabili hæstv. ráðherra verður lokið og í rauninni komið að vakt annars manns.

Af þeim leiðum sem hafa verið í umræðunni held ég að það sé alveg ótvírætt að gölluðust og verst er leið náttúrupassa sem ráðherrann leggur til. Aðrar leiðir sem nefndar hafa verið koma sannarlega til greina ef mönnum nægir ekki gistináttagjaldið til þess að fjármagna verkefnið, sem greinin telur þó vera og ég held að allar forsendur séu fyrir, því að svokölluð bílastæðaleið, a.m.k. ef það er hið opinbera sem byggir upp bílastæðin og innheimtir aðgang að þeim, og hins vegar komugjaldið eru leiðir sem sannarlega má finna efnisrök fyrir og er full ástæða til að skoða alvarlega af hv. nefnd á milli umræðna.

Sú leið að ætla sér að hafa eftirlit með því hvort bæði Íslendingar og erlendir gestir okkar hafi greitt tilskilin gjöld til þess að fara inn á helstu náttúrusvæði landsins, vera með þau óskilgreind þannig að þau séu bara á netinu einhvers staðar og það geti breyst frá einum tíma til annars hvaða svæði falli undir slíka gjaldheimtu og slíkt eftirlit, og ætla sér að vera með einhverja náttúruverði um allar koppagrundir eins og stöðumælaverðina í Reykjavík, að standa fólk að verki á ýmsum tímum sólarhringsins við það óhæfuverk að skoða náttúru Íslands, er í grundvallaratriðum vond hugmynd. Það er vond hugmynd að ætla að vera með kerfi sem kallar væntanlega á tugi starfsmanna í eftirlit um land allt, einhvers konar náttúruvarðlið sem fylgist með frjálsri för einstaklinga um landið.

Engum hefur tekist að útskýra hvernig eigi að fylgja eftir þeim sektarákvæðum sem í frumvarpinu gert er ráð fyrir. Með hvaða hætti ætla menn að innheimta 15 þús. kr. sekt af erlendum ferðamanni sem flýgur héðan með flugvél daginn eftir að náttúrvarðliðinn stóð hann að verki við að skoða íslenska náttúru? Ætla menn að senda alþjóðleg innheimtufyrirtæki á eftir ferðamanninum til þess að heimta af honum kröfurnar? Þekkja menn ekki hversu erfitt þetta hefur verið með stöðumælagjöldin? Þar er það þó þannig að þau eru lögð í tilfelli erlendra ferðamanna á bifreiðarnar sem eru hér á vegum bílaleigufyrirtækjanna og hanga þess vegna á þeim.

Ég held að þessir ágallar, eftirlitið, umstangið, sú hugmynd að ætla að rukka Íslendinga almennt fyrir það að skoða sína eigin náttúru, séu allt ágallar þar sem hver og einn nægi í sjálfu sér til þess að fella málið. Hins vegar vil ég segja um þær leiðir sem formaður atvinnuveganefndar hefur meðal annarra nefnt, bílastæðaleiðina og komugjöldin, að bílastæðaleiðin getur staðið undir nokkurri tekjuöflun og ef það er hið opinbera eða Vegagerðin sem byggir upp bílastæði og innheimtir fyrir aðgang að þeim þá sé ég ekki annmarka á þeirri leið. Það væri auðvitað annmarki ef það yrði einhver almenn ótakmörkuð gjaldtökuheimild fyrir einkaaðila á fólk sem ætlaði sér að skoða náttúru landsins. Það er kannski fyrst og fremst spurning um útfærsluna hvort slíka leið megi styðja.

Um komugjaldið þurfa menn að fara í gegnum allnokkurt hagsmunamat. Það er rétt að lönd sem búa að því að mikil ásókn er eftir því að komast þangað, eins og England, hafa lagt gjöld tengd landamærakostnaði á hvern þann sem þar lendir. Það eru lönd sem eru með mikla umframeftirspurn eftir því að komast þangað. Við þurfum að meta það áður en við leggjum á slík gjöld hvort við viljum hækka þröskuldinn, ef svo má segja. Það kann að stríða gegn loftferðasamningum sem við erum aðilar að að leggja á slík gjöld, a.m.k. ef þau eru ekki tengd landamærakostnaði, og þess vegna verður að fara mjög vel yfir þá hlið málsins. Það verður líka að meta kostnaðinn við að fljúga til Íslands. Ég hygg að hjá því lággjaldaflugfélagi sem hér skiptir hvað mestu máli í að flytja ferðamenn til landsins tólf mánuði á ári séum við nú þegar með allra dýrustu flugvöllum sem það félag flýgur á. Það þarf að fara fram vandað mat á því í hv. nefnd hvort menn vilji hækka þann kostnað sem er við það að lenda hér. Það getur haft bein áhrif á ferðamannastraum til landsins. Það er kunnara en frá þurfi að segja að menn hafa ráðist í verulegar fjárfestingar og vaxandi fjárfestingar, m.a. í hótelbyggingum, fjárfestingar til áratuga sem byggja á því að við höldum þeim ferðamannafjölda sem við erum með og aukum heldur við hann, en ekki á því að við missum öfluga aðila í því að draga fólk til landsins eins og öflug lággjaldaflugfélög hafa verið að gera.