144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Það má velta því fyrir sér af hverju við stöndum hér og ræðum þetta frumvarp yfir höfuð. Það er mjög takmarkaður stuðningur við það. Einstaka þingmenn hafa lýst yfir stuðningi og það er varla að ráðherra standi sjálf með eigin máli. Það eru mikil vonbrigði að eftir nærri því tvö ár þessarar ríkisstjórnar við völd sé þetta niðurstaðan úr því hvernig eigi að tryggja tekjur til þess að byggja upp ferðamannastaði.

Ég vil hefja mál mitt á því að segja að fátt er brýnna en ferðaþjónustan hvað varðar útflutningstekjur okkar til framtíðar, það hafa verið mestu útflutningstekjurnar af ferðaþjónustu á árinu 2013, ég veit ekki hvernig það var á árinu 2014, en ferðaþjónustan er ein af þremur meginstoðum í útflutningi á Íslandi. En helsta leiðin til að afla þeirra tekna er sú stórbrotna náttúra sem við eigum og laðar hingað hátt í milljón manns á ári og þeim fer fjölgandi. Svo er auðvitað mjög margt annað en náttúran sem fylgir með í kaupunum, ekki síst tónlist.

Til þess að halda Íslandi sem vinsælum viðkomustað og viðhalda þar með útflutningstekjum okkar af þessari grein og þeirri atvinnu sem því fylgir þurfum við að standa vörð um þær ómetanlegu náttúruperlur sem erlendir ferðamenn sækja heim. Víða erum við komin á fremsta hlunn með að eyðileggja þær perlur og umhverfið verður þannig að það verður minna eftirsóknarvert að koma. Það spyrst fljótt út þegar fólk er farið að tala um að það sé ekki mjög gaman að koma þangað sem átroðslan er orðin svo mikil að það er sársaukafyllra að horfa upp á skemmdir á náttúru heldur en að njóta hennar. Það er því mjög brýnt að bregðast við tekjuþörfinni til að byggja upp þessa staði, sem og til að þróa nýja staði.

Það má finna náttúrupassanum mjög margt til foráttu. Í fyrsta lagi ber náttúrlega að nefna að þetta er algjört brot á því prinsippi að fólk geti ferðast endurgjaldslaust um land sitt. Það eitt og sér er nóg til að vera algjörlega andsnúin þessu máli (Gripið fram í.) því þetta er það mikilvægt prinsipp (Gripið fram í.) að ekki er ásættanlegt að svo sé farið með almannaréttinn.

Hitt atriðið sem vekur athygli er veigamikið þótt það sé ekki jafn mikið prinsippmál. Það er einkennilegt að leggja út í skattheimtu sem þessa, það er áætlað að tekjurnar verði milljarður á ári, rúmur milljarður ef fjölgun ferðamanna verður eins og áætlað er, með svo gríðarlegum tilkostnaði. Þetta er ótrúlega flókið og umsvifamikið kerfi.

Það er ágætt að minnast þess að þegar átti að leggja á gistináttagjaldið, sem er þó innheimt í samhengi við innheimtu sem á sér stað engu að síður, þótti mörgum það ansi flókið og óárennilegt. Hér er verið að búa til algjörlega nýtt gjald með umsýslu af allra handa tagi og ekki bara það, heldur er mikið mál að hafa eftirlit með því að fólk greiði gjaldið. Það hefur ekki almennilega verið útskýrt hvernig það á að fara fram því þegar maður les kostnaðarmatið frá fjármálaráðuneytinu þá virðist vera sem það sé eitt stöðugildi til viðbótar sem eigi meira eða minna að dekka þetta. Það er áætlað að stofnkostnaðurinn, tímabundinn stofnkostnaður vegna kynningarátaks, sé 92 millj. kr. Ég átta mig ekki alveg á því, þetta tímabundna kynningargjald lýtur náttúrlega að þeim sem eiga að selja passann og slíkt og Íslendingum, en þeir sem koma til landsins og eiga að kaupa í mestum mæli þessa passa þurfa náttúrlega að fá kynningu. Það þarf að vera viðvarandi kynning á passanum. Rekstrarkostnaður á ári er síðan talinn vera um 23 millj. kr. Þá er það fólkið sem er að gefa út passann og hafa eftirlit með og aðra umsýslu. Þetta hlýtur að vera algjört vanmat nema það eigi að sleppa eftirlitinu meira eða minna. Það þýðir náttúrlega bara það að fólk mun átta sig fljótlega á því að það þarf ekkert að kaupa þennan passa. (PHB: Flestir eru heiðarlegir.) Ef það þarf ekki að kaupa passann þá fáum við ekki tekjur af honum og þá höfum við ekki tekjur til uppbyggingar á ferðamannastöðum.

Það er einboðið, herra forseti, að þetta mál getur ekki orðið að lögum. Það eru miklu einfaldari leiðir til að afla þessara tekna. Eitt er til dæmis að setja gistiþjónustu í hærra virðisaukaskattsþrepið. Það var nú fyrsta verk ríkisstjórnarinnar að lækka virðisaukaskatt á gistingu. Það mætti hækka gistináttagjaldið. Komugjöld eru augljós valkostur og mjög einfaldur. Þar að auki er það skilvirkasta leiðin til að afla tekna fyrir uppbyggingu. Svo eru ýmis þjónustugjöld sem eðlilegt er að skoða. Það þarf náttúrlega að skoða það heildstætt með öðrum aðgerðum að ef byggð er upp þjónusta á staðnum eins og bílastæði og klósett og slíkt að eðlilegt sé að fólk greiði fyrir aðgang að slíku.

Það alvarlega er að þessir fjármunir þurfa að koma inn núna. Við erum búin að bíða allt of lengi eftir tekjuöflun. Það er kannski stærsta verkefni atvinnuveganefndar ef þetta dómadagsfrumvarp kemst þangað inn, ekki að afgreiða það út því það tel ég ekki hægt, heldur að aðstoða ráðherra við það að finna leiðir til gjaldtöku, tryggja að ekki sé grafið undan atvinnugreininni af því að náttúran sem verið er að selja verði orðin svo átroðin og niðurnídd að það verði eiginlega ekki hægt að heimsækja suma af þessum stöðum.

Svo ég haldi mig við frumvarpið, þótt það sé furðulegt í ljósi lítils stuðnings við það, þá truflar mig mjög við lestur þess það sem snýr að aðilum sem eiga ekki aðild að náttúrupassa, aðilum sem eiga land og hafa ákveðið að selja þar inn. Það á ekkert að koma í veg fyrir slíkt, þarna á að verða einhvers konar gullgrafarastemning, eigendur vinsælla staða geta farið að selja inn á þá, en þeir eiga líka að geta sótt um í Framkvæmdasjóð ferðamanna. Það hlýtur að teljast furðulegt, en kannski í anda atvinnustefnu Sjálfstæðisflokksins að íslenskir skattgreiðendur greiði niður atvinnugreinar í staðinn fyrir að þær keppi á markaðsforsendum.

Herra forseti. Ég vil endurtaka að í fyrsta lagi er ógerningur að samþykkja þetta mál í ljósi þess að það er brot á því grundvallarprinsippi að Íslendingar fái gjaldfrjálst að ferðast um land sitt. Í öðru lagi er þetta óskilvirk og vond leið til að afla fjármuna. Það er fjöldinn allur af tekjustofnum sem við höfum nú þegar sem hægt er að hækka eða koma á sem hægt er að innheimta með mjög skilvirkum hætti. Ég vonast til atvinnuveganefnd fari ekki að eyða of miklum tíma í það að ákveða að þau ætli ekki að klára málið heldur einbeiti sér að því að aðstoða ráðherra við að finna leið til að afla tekna til þess að byggja upp og viðhalda mikilvægustu ferðamannastöðum landsins.