144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Áslaug Friðriksdóttir bendir hér á að það sé vilji til þess að gjaldtakan sé með þeim hætti að sem minnst lendi á Íslendingum. Þó að gjaldið sé ekkert sérstaklega hátt að sinni þá er þetta samt ansi óaðgengilegt og flókið fyrir fólk. Komugjald leggst jafnt á Íslendinga og erlenda ferðamenn. Það leggst þá á þá Íslendinga sem eru að ferðast mikið, en það er mjög skilvirk leið til þess að hver einasti ferðamaður sem hingað kemur greiði ákveðna hlutdeild inn í það að við getum byggt upp enn betri ferðaþjónustu og viðhaldið náttúruauðlindum okkar.

Það sem mér finnst áhugaverður punktur í andsvari þingmannsins er þetta með hvað Íslendingar greiða og hvað aðrir greiða. Ég man eftir því að hafa tekið þátt í umræðu um komugjöld og gistináttagjöld í efnahags- og skattanefnd á sínum tíma þar sem fram kemur að inn á Evrópska efnahagssvæðinu má ekki mismuna fólki eftir ríkisfangi. En mér finnst full ástæða til þess, ég þekki það bara ekki nógu vel, að atvinnuveganefnd fari yfir það hvort mismunun eftir búsetu sé í öllum tilvikum óheimil, hvort einhverjar leiðir séu til að rukka þá sem eru ferðamenn sérstaklega með ákveðnum skatti og þá í ljósi þess að þeir eru ferðamenn en ekki búsettir hér, og það eigi við um fólk óháð því hvort það eru Íslendingar búsettir erlendis sem koma sem ferðamenn eða erlendir ferðamenn. Mér finnst líka þurfa að ganga úr skugga um það hvort það sé svo heilagt (Forseti hringir.) prinsipp að ferðaþjónustu sé ekki hægt að fjármagna með sérstökum gjaldstofni.