144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mitt hlutverk hér er ekki að vera á nótum sem endilega þóknast hv. þm. Pétri H. Blöndal og ef ég er ekki nógu jákvæð fyrir hans smekk þá ætla ég bara að segja það, herra forseti, að mér er nákvæmlega sama hvað honum finnst um það.

Varðandi íslenska náttúru sem ekki getur beðið lengur þá er það algjörlega rétt, en slóðaskapur ríkisstjórnarinnar afsakar ekki að hér sé settur á fordæmalaus skattur sem Íslendingar þurfa að borga til þess að geta ferðast um landið sitt. Og ég hvatti einmitt til þess að nefndin aðstoðaði ráðherra við það að finna færar leiðir. Núna voru settir inn fjármunir í uppbyggingu ferðamannastaða á fjáraukalögum af því það var neyðarástand. Við verðum þá eftir vinnu atvinnuveganefndar að sameinast um að það verði gert öðru sinni og þinginu og ríkisstjórninni gert kleift að finna færa leið. Þannig verður það bara að vera. Það er ekki hægt að segja: Nú erum við svo sein að við verðum bara að innleiða eitthvert bullkerfi til þess að fá þessa fjármuni. Þá fjármuni er alveg hægt að fá með öðrum hætti. Það er okkar að ákveða það.

Ég er algjörlega fylgjandi því að Alþingi taki sér það vald sem það vill taka sér og vinni mál, en það er náttúrlega vandræðalegt og til vansa að það sé svo lítill stuðningur hér við stjórnarfrumvarp að flestir séu á hlaupum við það að gera þingið ábyrgt fyrir því að redda því klúðri og þeirri klúðurstöðu sem við erum komin í. Það er engin afsökun. Fólk á að sjá sóma sinn í því að leggja fram frumvörp sem eru þess eðlis að þau séu yfirleitt umræðuhæf.