144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef gert afstöðu mína í þessu máli mjög skýra í andsvörum og fyrri ræðuhöldum. Það má segja að þessi umræða sé að lokum komin en ég vil segja undir lok hennar að mér finnst hún hafa skilað mörgu. Hún hefur verið snörp á köflum, ákaflega heit í upphafi en hún hefur verið málefnaleg. Mér finnst sem hér hafi komið fram ákaflega margar hugmyndir og það mætti eiginlega segja að það liggi fyrir hv. atvinnuveganefnd, sem fær að sjálfsögðu þetta mál, hlaðborð hugmynda.

Ég vil sérstaklega í upphafi máls míns hrósa hv. þingmönnum stjórnarliðsins fyrir að hafa tekið með ákaflega opnum huga og víðsýni á þessu frumvarpi. Menn hafa ekki hikað við að segja á því kost og löst. Hv. þm. Áslaug Friðriksdóttir, sem situr hér í fyrsta sinni á meðal vor, hefur bent á bæði jákvæða hluti við þetta frumvarp og sömuleiðis neikvæða og það hafa ýmsir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gert. Flestir, að einum undantöldum, sem töluðu af hálfu Framsóknarflokksins hafa hins vegar fundið frumvarpinu ákaflega margt til foráttu.

Ég tel að þessi umræða hafi skilað þremur meginniðurstöðum. Í fyrsta lagi held ég að allir séu sammála um að við viljum fara þá leið að taka á einhvern hátt gjald til að skapa tekjustreymi til að standa undir uppbyggingu ferðamannastaða. Það er ekkert sjálfgefið. Það mætti allt eins hugsa sér að færa sterk rök fyrir því að með hliðsjón af því að ferðaþjónustan er núna orðin stærsta atvinnugrein að umfangi í landinu og mun, þegar hún er komin í eðlilegt form og skattumhverfi sem almennt ríkir um atvinnugreinar nær yfir hana líka, skila það miklum tekjum að það er ekkert óeðlilegt að segja sem svo að rétt sé að ríkið í gegnum þá skattheimtu standi straum af uppbyggingunni. En umræðan hefur skilað okkur að þeirri niðurstöðu, finnst mér, að allir eru þeirrar skoðunar að rétt sé að finna leiðir til að taka á einhvern hátt sérstakt gjald til að standa undir þessu.

Í öðru lagi hefur umræðan auðvitað skilað því sem er alveg dæmalaust, það er enginn stuðningur við frumvarp hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Ég minnist þess ekki á þeim bráðum 25 árum sem ég hef setið í þessum sölum að það hafi nokkru sinni gerst að komið hafi fram frumvarp sem nánast enginn úr flokki viðkomandi ráðherra lýsir óskoruðum stuðningi við. Það hefur enginn gert. Í þessari umræðu hefur nánast enginn, ef undan er talinn hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, lýst nokkuð skilyrðislausum stuðningi við frumvarpið. Ég man ekki eftir því að það hafi komið fram frumvarp þar sem báðir formenn þingflokka, stjórnarflokkanna, lögðu lykkju á leið sína í fjölmiðlum til að greina frá því að þeir væru ekki hlynntir frumvarpinu. Auðvitað er minni mitt farið að förlast og nær kannski ekki langt aftur, en ég man ekki betur en ég hafi heyrt hv. þm. Jón Gunnarsson, formann atvinnuveganefndar sem fær málið til sín, lýsa ákaflega miklum efasemdum um þetta.

Þriðja meginniðurstaðan, sem skiptir mjög miklu máli eins og umræðan er stödd, er svo sú að hæstv. ráðherra hefur sagt að hún sé reiðubúin til að hlusta á breytingar og hún segir það beinlínis að nefndin eigi að finna samstöðu. Með öðrum orðum er málinu er vísað til nefndarinnar, kannski ekki til frumvinnslu en nefndin á að vinna úr því hlaðborði hugmynda sem hér liggur fyrir.

Mín afstaða hefur komið nokkuð ljós fram í þessu máli. Hún er kannski þríþætt. Í fyrsta lagi er það almannarétturinn. Ég lít á hann sem einn af helgustu réttum sem við þegnar í hinu íslenska lýðveldi höfum. Hann er ævagamall. Hann var partur af byggingu hins íslenska samveldis. Hann var frumréttur sem Íslendingar höfðu á sínum tíma. Menn höfðu rétt til frjálsrar farar yfir lönd með búsmala sinn og ekki einungis það. Þeir máttu sömuleiðis nýta þau lönd eins og þeir þurftu á meðan þeir voru á ferðalaginu. Þeir máttu jafnvel beita búsmala sínum á slíkum ferðum á löndin, þeir máttu veiða fisk sér til matar og lesa ber, þeir urðu að ganga vel um. Þetta hefur fylgt okkur allar götur síðan. Menn hafa hér á undarlegum hátt verið að tala um að það sé einhvers konar þrátefli á millum stjórnarskrárinnar, og vísa þá einkum til núverandi stjórnarskrár, og almannaréttarins. Ég vísa því algerlega á bug. Ég hef farið lítillega yfir það áður og geri kannski á eftir ef mér vinnst tími til. En það er merkilegt að það er einungis hæstv. ráðherra og hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hafa vísað til þeirrar þrástöðu milli almannaréttarins og stjórnarskrárinnar. Þá er rétt að rifja upp að almannarétturinn hefur lifað af þrjár stjórnarskrár og nábýlið hefur verið giska farsælt. Það hafa engin mál risið og engir úfar fyrr en hæstv. ráðherra hefur teflt málinu í þá stöðu að það er líklegt að ef það fer fram eins og það liggur fyrir muni rísa miklar deilur og málaferli. Það hygg ég.

Í öðru lagi byggist andstaða mín á því að ég er mjög ósáttur við að hér sé í fyrsta skipti í frumvarpi til laga beinlínis gert ráð fyrir því og hvatt til þess að eigendur náttúruperlna geti rukkað fyrir aðgengi. Ég er algerlega á móti því. Þetta eru stóru tíðindin úr þessu og ég verð að segja að þarna finnst mér hæstv. ráðherra sigla undir fölsku flaggi. Hæstv. ráðherra hefur sagt mjög skýrt þegar við höfum verið að ræða þrátefli stjórnarskrárinnar og almannaréttarins, og þá stöðu sem kom upp með því að menn víðs vegar um landið hafa viljað taka gjald fyrir aðgengi að löndum sem þeir eiga, að það mál verði ekki útkljáð hér og það sé ekki hennar verk að útkljá það. En, herra forseti, hún hefur útkljáð það.

4. gr. þessa frumvarps er lykilgrein og svo ég noti orð hv. þm. Líneikar Sævarsdóttir þá ýtir hún undir að menn fari þessa leið. Og samspil 4. gr. og 11. gr. herðir frekar á þeirri för. En til að taka af allan vafa um það að hæstv. ráðherra er sér ákaflega vel meðvituð um það að hún er að útkljá þetta mál landeigendum í vil þá ætla ég í annað sinn á þessum degi að lesa texta sem er tekinn af heimasíðu ráðuneytis hennar. Þar eru settar upp staðreyndir málsins í formi spurninga og svara og þar er ein spurningin þannig að spurt er hvort náttúrupassinn komi í veg fyrir gjaldtöku einkaaðila á einstökum ferðamannastöðum. Svar hæstv. ráðherra er ótvírætt og afdráttarlaust og það er svona: „Nei, einstakir landeigendur geta eftir sem áður í krafti eignarréttar síns rukkað aðgangseyri á sína staði.“ Þetta er í fyrsta skipti sem ráðherra íslenska lýðveldisins treystir sér til að segja svona. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra treystir sér ekki til að taka svona til orða þegar gengið var á hann út af því róti sem varð vegna gjaldtöku á Geysissvæðinu. En hæstv. viðskipta- og iðnaðarráðherra tekur algerlega af skarið og eftir svona orðalag getur hún ekki komið og skotið sér á bak við þann skjöld að málið sé ekki útkljáð. Hún er að reyna að útkljá það landeigendum í vil og það finnst mér það versta við þetta frumvarp og í reynd stærstu tíðindin. Af því að ég er kristinn maður og lifi eftir Biblíunni, þá segi ég: Ræða þín skal vera já, já og nei, nei, eins og þar segir. Hæstv. ráðherra hefði átt að segja þetta ótvírætt en hún skaut sér undan því og gaf annað til kynna. Það fannst mér ekki gott.

Í þriðja lagi mátti líka ráða það af endurteknum svörum hæstv. ráðherra í ýmsum umræðum sem spruttu í tilefni af því uppnámi sem varð vegna gjaldtöku sem tekin var upp á tveimur stöðum og fyrirhuguð á hinum þriðja. Hún talaði þannig að þegar þetta frumvarp kæmi fram væri málið leyst og það yrði sett samræmi á hið töluverða kaos sem komið var upp. Ég vísa þá sérstaklega til svars hennar um miðjan desember, hugsanlega fyrri part desember, þegar hún svaraði leiðtoga mínum, formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Páli Árnasyni. Þar kom þetta alveg skýrt fram og reyndar á fleiri stöðum. Mér finnst að ráðherrann hafi ekki talað algerlega og nægilega skýrt í því efni.

Um frumvarpið sjálft ætla ég ekki að fjölyrða nema ég hef þegar mörgum sinnum rætt 4. gr. Ég hef þrenns konar athugasemdir við hana. Í fyrsta lagi er það sú óskýra skilgreining sem þar er að finna þegar maður les saman 1. og 2. málsliðinn. Í 1. málslið segir alveg skýrt að allir ferðamannastaðir í eigu eða umsjón opinberra aðila eigi sjálfkrafa aðild. Menn skilja þetta auðvitað þannig að ekki sé hægt að færa sig spönn frá rassi á Íslandi utan borgar- og bæjarmarka án þess að þurfa að greiða fyrir það þennan passa. Ráðherrann hefur hrakist úr þeirri afstöðu til að segja að í reynd verði þetta aðeins 10–12 staðir sem verði skilgreindir eins og segir í 2. málslið, sem sérstakir staðir í náttúru Íslands sem hafi einstakt aðdráttarafl í sögu menningar eða náttúru. Hvernig í ósköpunum stendur á því að það er ekki búið á 20 mánuðum að skilgreina það? Ég geri athugasemdir við þetta og gæti gert stærri, en ætla þó ekki að gera það frekar.

Ég ætla ekki að gera neitt röfl úr þessu eftirliti. Það er í skötulíki en ég bara fagna því. Ég verð þá ekki nappaður ef að því dregur. Ég ætla ekki að borga þennan náttúrupassa eins og fram hefur komið, vona að ég særi ekki siðferðisvitund hv. þm. Péturs H. Blöndals með því.

Það sem skiptir síðan töluvert miklu máli fyrir mig er að þegar ég les saman 4. gr. og 11. gr. finnst mér sem þar sé beinlínis verið að opna alveg sérstaklega og hvetja menn sem eiga lönd til að selja aðgang að þeim ef þeir hafa tækifæri til þess. Í 11. gr. kemur sem sagt fram að það á að verja 10% af þessari upphæð, sem menn telja að verði 1 milljarður, til þeirra sem standa utan hinna opinberu svæða. Menn vita alveg að 100 millj. kr. til að byggja upp þau svæði er allt of lítið. Það er enginn hvati til þess. Því segi ég það að gallinn við þessa grein er sá að hún kemur ekki á samræmi heldur ýtir undir kaos. Það sem við munum sjá er þá að þeir sem borga passann, reisupassa hæstv. ráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, fyrir 1.500 kr., og það er ekkert mikið verð, það er prinsippið sem skiptir máli, en það er verra sem fylgir í kjölfarið. Kerið er nú þegar með 300 kr., voru það ekki 500 kr. sem voru rukkaðar á Geysi meðan það stóð yfir? Námaskarð og Leirhnjúkur og það svæði þeirra Reykhlíðinga, þar átti að taka að mig minnir 800 kr. Svona mun þetta rekja sig, einn staður af öðrum, og ef við horfum svolítið fram í tímann mun það að sjálfsögðu þróast á þann hátt. Þegar upp verður staðið stöndum við frammi fyrir landi sem er lokað nema menn borgi fyrir þessa staði og það eru fjölmargir staðir sem eru utan opinberra svæða. Þá kem ég aftur að því sem ég sagði áður: Þetta er almannarétturinn og ég vil ekki að hann verði tekinn af mér.

Ég tel hins vegar að umræðan sem hér hefur verið um almannaréttinn hafi verið mjög gagnleg og það gleður mig að fá tækifæri í þriðja skipti á mínum ferli hér til að taka umræðu um hann. Öllum er hollt að gera það á um 10 ára fresti. Almannarétturinn er ekki helgasti rétturinn að því er varðar þetta mál. Náttúran stendur þar ofar. Við þurfum að vernda hana. Það er algerlega klárt og það er hægt að gera öðruvísi en með þeim passa sem er verið að tala um. Það er algerlega ljóst að náttúran getur við sérstakar aðstæður borið skaða af almannaréttinum og það jaðrar við að það sé á sumum stöðum, eins og Herðubreiðarlindum og viðkvæmum stöðum líkt og þeim sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi. Þetta verður að liggja algerlega ljóst fyrir.

Það eru ýmsar leiðir sem hægt er að velta upp til að fara og afla tekna. Virðisaukaskattsleiðin er ein. Það hlýtur auðvitað að koma að því að þessi grein verði ekki seld undir neinar undanþágur eins og er í dag. Hún er orðin öflugasta atvinnugrein landsins og að því kemur. Spurningin er: Getum við beðið eftir því? Varla, eins og staðan er.

Í öðru lagi vil ég ekki vísa frá möguleikanum um beinar greiðslur fyrir veitta þjónustu eins og snyrtiaðstöðu, hreinlætisaðstöðu. Ég þekki það sjálfur frá því að ég var í Þingvallanefnd og umhverfisráðherra dögum fyrri að það er mikill kostnaður og mikil þörf fyrir það. Og sömuleiðis bílastæði. Komugjöldin í stuttu máli, ég tel að það sé ekki farsæl leið og get ég kannski í síðari ræðu minni, því ég á hana eftir, farið aðeins yfir það. En ég hníg alltaf að sömu lausninni sem er gistináttagjaldið. Rökin gegn því eru ákaflega veik hér í frumvarpinu. Þau rök sem hv. þm. Áslaug Friðriksdóttir var með áðan voru góðra gjalda verð, kannski bestu mótrökin. Því sem ég tefli á móti er að hér hafa komið fram hugmyndir um stigaskiptingu, þrepaskiptingu þess. (Forseti hringir.) Í næstu ræðu minni get ég farið út í það. Það eru lausnir á þessu. En ég er líka til sátta og málamiðlunar reiðubúinn til að ræða blandaða leið.