144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er mjög ósáttur við viðhorfin hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hún er fulltrúi almannavaldsins, hún er fulltrúi minn og hún á að standa með mér og hún á að standa með almenningi. Ef málið er óútkljáð þá á hún ekki sem handhafi framkvæmdarvaldsins að taka sér stöðu með þeim hætti að það er háskalega nærri því að segja að hún standi með landeigendum í máli sem á eftir að útkljá að hennar dómi. Það sem er nöturlegast við þetta er að hæstv. ráðherra gengur lengra en Óskar Magnússon, forvígismaður þeirra sem rukka inn fyrir Kerið. Hann hefur sagt það nýlega í útvarpi að hann geri greinarmun á því sem hann kallar iðnað annars vegar og hins vegar því þegar einhverjir kallar koma með stelpurnar sínar og vilja skoða Kerið. Og það sem meira er, hann gerir það í praxís, ég hef ekki af því persónulega reynslu, ég tek það fram en hann gerir það.

En mér finnst að ráðherrann stilli sér handan hans og gangi lengra. Ég tel að hér sé um að ræða ákaflega mikilvægt og sterkt prinsippmál og það varðar tilfinningar mjög margra og hvernig þeir upplifa sitt eigið land, náttúruna og tengslin þar á milli. Enn aftur ítreka ég það að ég skil það vel að breyttar aðstæður setja almannaréttinn kannski í svolítið annað og nýrra ljós. Þessar breyttu aðstæður eru þær að hingað koma milljón ferðamenn og kannski verða þeir 2,3 milljónir innan einhvers tiltekins tíma, eins og einhver þingmanna sagði hér í dag. Þá verðum við að skoða það með hvaða hætti við tökum á því en það má ekki verða til þess að réttur hins venjulega Íslendings til að fara með þeim sama hætti um landið og menn hafa alltaf gert án þess að spilla því sé fyrir borð borinn. Mér er umhugað um það og mér finnst að hæstv. ráðherra beri ekki alveg nógu mikinn skilning á þessum tilfinningum fólks.