144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég skal gæta þess að troða ekki um of á tilfinningum hans. Hann talar mikið um almannarétt og stjórnarskrá. Ég talaði ekki endilega um almannarétt og stjórnarskrá heldur um almannarétt og náttúruna.

Þegar ég fór fyrst upp á Keili fyrir allmörgum árum — og það er afskaplega mikil upplifun að fara upp á Keili, sérstaklega í góðu veðri — þá gekk ég yfir hraunið. Þar var lítill slóði og ómerkilegur og erfitt að finna hann og maður sá engar skemmdir. Síðast þegar ég fór upp á Keili, það er ekkert voðalega langt síðan, þá var komið svöðusár í hraunið. Er það mér að kenna þegar ég gekk fyrst um eða er það einhverjum öðrum að kenna? Eða er það mér að kenna frá því að ég gekk um síðast? Hvar er almannarétturinn? Get ég gengið hvernig sem ég vil yfir mosagróið hraun? Ég held ekki. Náttúran líður fyrir það. Þegar ég er orðinn margfaldur, þegar nógu margir, segjum 10 þúsund manns, fara sömu leið og ég, verður náttúran að fá vernd. Þarna rekst almannarétturinn á við náttúru Íslands (ÖS: Eins og ég var að segja.) — já, þannig að við erum sammála um það, þannig að almannarétturinn er ekkert algildur. (ÖS: Nei.) Þá erum við bara hjartanlega sammála.

Ég hef bent á leið, ef mönnum finnst svona ógurlega sárt að borga 1.500 kr. af prinsippástæðum, til að hægt sé að hafa þetta ókeypis. Með því að hafa sérstakan persónuafslátt sem er ætlaður í náttúrupassann. Allir skattskyldir Íslendingar 18 ára og eldri — líka þeir sem ekki borga skatt — geta vísað í það og fengið þetta greitt, allir sem eru með kennitölu og eru skattskyldir þurfa ekki að borga. Þá getur vel verið að það hlífi tilfinningum einhverra sem vilja ekki af prinsippástæðum greiða.