144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Miðað við þær ræður sem hér hafa verið fluttar í dag þá er ég afar undrandi á því að frumvarpið hafi yfir höfuð verið lagt fram vegna þess að það er ekki einu sinni að heyra að það hafi almennan stuðning í stjórnarflokkunum. Hér eru gerðar veigamiklar athugasemdir við málið sem koma úr þó nokkrum áttum. Sumar eru tæknilegar og varða frumvarpið sjálft en aðrar varða prinsipp, þ.e. menn eru á móti grunnhugmyndinni. Þá spyr maður sig hvernig við verjum tíma okkar á þingi. Hefði ekki verið betra, í staðinn fyrir að koma með svona mál hingað inn, að óska eftir því að þverpólitískur hópur þingmanna færi í að smíða þessa löggjöf?

Ferðaþjónustan er orðin gríðarlega þróttmikil atvinnugrein og við erum öll stolt af henni, ánægð með það hvernig hún hefur byggst upp á undanförnum árum. Þetta mál verður ekki til í einhverju tómarúmi. Við höfum öll skilning á því að það þarf fjármuni til uppbyggingar ferðamannastaða og það þarf líka fjármuni til að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið fyrir ferðaþjónustuna, að dreifa ferðamönnum betur um landið, verja landið betur og fjölsóttustu ferðamannastaðina fyrir mestum ágangi og það þarf líka að dreifa komu ferðamanna betur yfir árið. Menn hafa farið í stórátak til að dreifa ferðamönnum betur yfir árið sem gengið hefur vel, sem er Ísland allt árið. Sett var á laggirnar gistináttagjald á síðasta kjörtímabili sem var ekkert besta mögulega niðurstaðan en hún var engu að síður niðurstaða eftir vinnu þingsins hér og var smækkuð útgáfa af upphaflegri tillögu sem var sambland af gistinátta- og komugjaldi. Síðan hefur kannski minna verið gert í þá veru að reyna að finna leiðir til að dreifa ferðamönnum betur um landið. Þetta frumvarp breytir ekki neinu þar um, ekki er gert ráð fyrir neinum fjármunum til að bæta aðgengi að nýjum ferðamannastöðum með það að markmiði að taka hluta af straumnum eða mestu þyngslin frá þeim allra fjölsóttustu. Það er ekki heldur komið inn á þennan þriðja lið í frumvarpinu. Ef ég man rétt, þá var eitt af markmiðunum með Framkvæmdasjóði ferðamannastaða að reyna að veita fjármuni til verkefna sem dreifðu ferðamönnum betur um landið, ég vona að ég sé ekki að fara rangt með, en hér er þá verið að þrengja svið Framkvæmdasjóðsins að því leyti.

Virðulegi forseti. Hér hefur mikið verið talað um gistináttagjaldið og margir talað það mikið niður, að þetta sé veikburða gjaldtaka og hér séu margir aðilar að innheimta lítið gjald. En það er nú bara orðið þannig að ég held að það sé ekki til sá staður sem maður heimsæki erlendis þar sem þetta er ekki gert með einhverjum hætti, þ.e. sett sérstakt gjald á gistingu. Þetta er ekki óþægilegra en svo að ef maður bókar t.d. hótel í Prag, greiðir maður sérstaklega rúmlega 2 evrur. Það er sérstakt gjald þar. Ef maður fer til Edmonton í Kanada eru þrjú ólík gjöld sett á hótelreikninginn og ef maður fer til Genfar er eitt gjald eða tvö, ef ég man rétt. Þetta er því þekkt gjald. Hér hefur verið talað um verðteygni og áhrif gistináttagjaldsins á hana en þetta er orðin það þekkt gjaldtaka að mér er það mjög til efs að hún angri nokkurn ferðamann lengur, þetta er gjaldtaka sem er orðin þekkt um allan heim. Það er einfaldlega þannig.

Náttúrupassi eins og hann er kynntur hér er nýstárlegt fyrirbæri. Þar er verið að biðja ferðamanninn um það að þegar hann kemur til Íslands eigi hann að vera búinn að fara inn á sérstaka heimasíðu til að kaupa sér passann sérstaklega, hann eigi annaðhvort að prenta hann út og hafa hann á sér eða vera í GSM-sambandi eða hvað það er og hafa hann í gemsanum sínum til að geta sýnt eftirlitsmanninum — af því að mér sýnist vera gert ráð fyrir einum starfsmanni í frumvarpinu — ef hann skyldi rekast á hann á ferðum sínum. Ef hann er svo óheppinn að hitta eftirlitsmanninn á ferðum sínum og er ekki með passa getur eftirlitsmaðurinn ákveðið að ferðamaðurinn fái á sig 15 þús. kr. sekt. Ef ferðamaðurinn er á leið úr landi daginn eftir, hvernig ætla menn, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi áðan, að elta hann með þessa stjórnvaldssekt úr landi? Hver verður andmælaréttur hans? Það er verið að búa til flækjustig ofan á flækjustig og það er verið að gera það eins óaðlaðandi og hægt er fyrir ferðamenn að koma hingað og njóta náttúru Íslands og greiða fyrir það örlítið gjald af því að þetta er pínulítið gjald og það er ekki þannig að hér sé um að ræða tillögu með einhverju smotteríisumfangi. Það er bara ekki þannig. Hér er um að ræða heilmikið umfang.

Virðulegi forseti. Af öllum þeim hugmyndum sem fram hafa komið í gegnum tíðina um það hvernig hægt sé að innheimta gjald, miðlægt, til að ná markmiðum um uppbyggingu nýrra staða og þeirra ferðamannastaða sem þegar eru fyrir hendi, er þetta sú allra versta. Ég verð að segja eins og er að það er margt annað í þessu frumvarpi sem orkar tvímælis. Hér hefur ágætlega verið farið yfir almannaréttinn og ég ætla að láta það vera á mínum stutta tíma. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að tala um einstakar greinar frumvarpsins og hugmyndina sjálfa sem hér er að baki vegna þess að mér finnst hún ekki standast að einu eða neinu leyti. Hún er svo óskýr að það þarf að vinna málið algerlega upp á nýtt. Ég held að þegar menn fara að gera það og grafa betur í því þá sjái þeir að umfangið verði ekki ferðarinnar virði og óþægindanna fyrir ferðamanninn sjálfan.

Mig langar að byrja á því að nefna eftirlitið. Hér er fjallað um það að þegar ferðamaðurinn er á ferðum sínum um landið eigi eftirlitið að hafa fælingarmátt til þess að menn gangi ekki um passalausir, hvort sem það eru erlendir eða innlendir ferðamenn. Það sem ég á hins vegar erfitt með að skilja varðandi eftirlitið er í fyrsta lagi það að í 6. gr. er gert ráð fyrir að Ferðamálastofa eigi að annast eftirlitið og nánar skuli kveðið á um eftirlit Ferðamálastofu í reglugerð sem ráðherra setur. Þá er í greinargerðinni greint frá því að ráða eigi einn starfsmann til viðbótar út af verkefninu til Ferðamálastofu en svo segir í greinargerðinni líka, með leyfi forseta: „Eftirlitið er í umsjón Ferðamálastofu en það er ekkert í frumvarpinu sem bannar henni að gera þjónustusamning um eftirlit.“ Þá vakna tvær spurningar: Í fyrsta lagi sú sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega yfir í ræðu sinni, þ.e. hversu veik lagastoðin fyrir þessu væri, það væri engin lagastoð í frumvarpinu fyrir því að starfsmenn Ferðamálastofu gætu lagt á stjórnvaldssektir. Þá spyr maður sig: Hvað með verktakann? Ef gert er ráð fyrir því að þessi eini starfsmaður sem Ferðamálastofa á að ráða eigi ekki að annast þetta einn heldur eigi að útvista verkefninu eins og sagt er, hver er þá staðan varðandi stjórnvaldssektina? Nefndin þarf að fara vandlega yfir heimildir til þess. Þetta er allt óskaplega veikt. Og hvers lags sjónarmið er það sem fram kemur í frumvarpinu um að ef eitthvað standi ekki í því sé það bara heimilt? Hvers lags sjónarmið er í greinargerð með frumvarpi frá ráðherra í ríkisstjórn Íslands að segja bara: Það er ekkert í frumvarpinu sem bannar mönnum að gera eitthvað, það geti þá bara verið gert. Það eru ekki eðlileg skilaboð að mínu mati.

Komum síðan að öðru sem gengur heldur ekki upp í frumvarpinu. Í umsögn fjármálaráðuneytisins kemur fram að gert sé ráð fyrir að aukinn rekstrarkostnaður Ferðamálastofu vegna þessa á árinu 2015, þ.e. á fyrsta árinu sem þetta verður rekið, verði 22,9 millj. kr. Förum yfir hvað á að gera fyrir þessar 22,9 millj. kr. Það á að ráða starfsmann á Ferðamálastofu. Það á mögulega að útvista eftirlitinu til verktaka innan 22,9 millj. kr. ramma. Það á að búa til vefsíðu, það á að búa til kerfi sem rekur þetta, það á að markaðssetja og kynna náttúrupassann fyrir 22,9 millj. kr. Ég skil ekki hvernig þetta á allt saman að ganga upp. Það er gert ráð fyrir 40 millj. kr. á ári þegar reksturinn af kerfinu verði að fullu hafinn og ég geri þá ráð fyrir því að menn ætli Ferðamálastofu að búa til kynningarefni, á mörgum tungumálum væntanlega. Menn ætla væntanlega að láta Ferðamálastofu smíða vefsíðu, viðhalda henni og reka hana. Það gengur ekkert upp í þessu frumvarpi Það gengur ekki upp að innan ramma 22,9 millj. kr. aukins rekstrarkostnaðar geti Ferðamálastofa sett þetta verkefni af stað. Það gengur heldur ekki upp að innan 40 millj. kr. ramma ætli menn að reka þetta þegar við erum að tala um hugsanlega milljón ferðamenn sem eru á ferðinni hér yfir árið, innlendir og erlendir samantaldir, sem fara inn á þau náttúrusvæði sem um er að ræða. Ef við leggjum af stað í þetta verkefni þannig að eftirlitið verði ekkert — peningarnir segja okkur það, eini starfsmaðurinn á Ferðamálastofu segir okkur það — hvað erum við þá að leggja af stað í? Þá er enginn fælingarmáttur. Af hverju á þá fólk að fara yfir höfuð og kaupa sér þennan náttúrupassa? Það gengur ekkert upp í þessu máli.

Hitt verð ég líka að nefna, og það skil ég ekki heldur, að það er afar óskýrt hvaða staðir þetta eiga að vera. Í 4. gr. er vísað í frumvarp sem umhverfisráðherra mun væntanlega mæla fyrir, sem er frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn. Þar kemur maður líka að tómum kofanum. Hvenær og hvernig ætla menn líka að skilgreina þessa ferðamannastaði og hvenær og hvernig geta nýir staðir komið inn í þetta kerfi? Ef þetta eru bara tíu til tólf staðir, hvers vegna liggja þeir þá ekki fyrir ef menn geta gefið sér það fyrir fram, ef ráðherrann getur sagt okkur það fyrir fram að þetta séu í mesta lagi tíu til tólf staðir? Það er mér algerlega óskiljanlegt og ég tek undir þá gagnrýni sem fram kom áðan hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Þetta er allt of veikburða, í fyrsta lagi að menn skuli velja verstu mögulegu hugmyndina og tillöguna um leið að því að fara í miðlæga gjaldtöku til að geta byggt upp náttúru Íslands og viðhaldið náttúruperlunum og í öðru lagi stenst útfærslan sjálf ekki, það stendur ekki steinn yfir steini í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum með þetta. Að sama skapi finn ég örlítið til með ráðherranum því það er heldur ekkert auðvelt að starfa í þessu umhverfi sem ráðherra þegar ferðaþjónustan hefur ekki getað komið sér saman um hver eigi að taka að sér að innheimta þetta gjald, eða framan af gat hún ekki komið sér saman um það. Hún hefur hins vegar núna kallað eftir því að gistináttagjaldið verði nýtt áfram og það verði aukið í því. Hvers vegna þá ekki að fara þá leið? Af því að ráðherra var búinn að ákveða að náttúrupassinn væri hið eina sanna? Náttúrupassinn er það ekki. Hann mun kosta miklu meira en hér kemur fram ef hann á nokkurn tíma að verða trúverðugur. Umfangið í kringum þetta á eftir að verða miklu meira en nokkurn órar fyrir og þetta verður eins óaðlaðandi og hægt er fyrir ferðamanninn sjálfan. Ég bið þingmenn um að lesa sig í gegnum þetta og setja sig í spor ferðamannsins sem kemur hér utan frá, sem mun þurfa að kaupa sér náttúrupassa en svo fer hann að ferðast um náttúru Íslands og mun samt halda áfram að reka sig á alls konar hlið þar sem einkaaðilar innheimta gjald og síðan gæti hann verið hundeltur út fyrir landsteinana með stjórnsýslusekt á bakinu af því að hann var svo óheppinn að hitta eftirlitsmanninn eða verktakana sem talað er um í greinargerð.

Virðulegi forseti. Ég vona það innilega og sannarlega að menn finni aðra leið (Forseti hringir.) til að ná þeim markmiðum sem frumvarpinu er ætlað að ná. Ég hef lýst því yfir að ég er tilbúin í þá vinnu (Forseti hringir.) en upp á þessa leið get ég ekki kvittað.