144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er að sönnu ánægjuefni hvernig þróunin hefur verið í ferðaþjónustu okkar, hversu margir erlendir ferðamenn hafa áttað sig á þeirri náttúru sem landið býður upp á, þeim mikilfengleik sem íslensk náttúra býr yfir. Það á sér eflaust margar skýringar hvernig til hefur tekist á undanförnum árum, sú mikla fjölgun sem við höfum orðið vitni að á rætur sínar að rekja til öflugs markaðsstarfs en þó held ég ekki síður til þess sem hefur rekið á fjörur okkar sem er svo sem allt saman ekki fagnaðarefni, eins og eldgos sem vakið hafa mikla athygli um allan heim, og öll fjölmiðlaumfjöllunin í kringum það. Það hefur leitt af sér að kvikmyndagerð hér hefur aukist mjög mikið og aðgerðir til að efla þá þjónustu hafa skilað sér og landkynningin orðið mikil. Af þessu hafa sprottið miklar tekjur sem hafa komið sér vel á erfiðum tímum fyrir þjóðarbú okkar, miklar gjaldeyristekjur og er það nú orðið svo að greinin skapar orðið um fjórðung gjaldeyristekna ríkisins.

En þetta hefur sínar svörtu hliðar og þær koma kannski fyrst og fremst fram í auknu álagi á viðkvæma náttúru landsins, álagi á landið okkar. Við höfum orðið vitni að því sem ferðumst um landið og fundið fyrir þeirri umræðu að ferðamannastaðir eru farnir að láta verulega á sjá, þjónusta er ekki með þeim hætti sem boðleg er fyrir þjóð sem ætlar að hafa öfluga starfsemi í atvinnugreininni til lengri tíma. Það verður að bregðast við því. Einnig hefur þessi mikli fjöldi ferðamanna leitt af sér mikið álag á viðbragðsaðila í landinu og eins og við þekkjum vel byggir auðvitað kerfið okkar þar fyrst og fremst á sjálfboðaliðasveitum um allt land sem gegna veigamiklu hlutverki í því að tryggja öryggi ferðamanna sem og okkar sem búum í þessu landi. Við þurfum auðvitað að sýna þeim ríkari stuðning en hægt hefur verið fram að þessu til þess að álagið verði hreinlega ekki of mikið fyrir þá sem skipa það ágæta lið.

Við þurfum að bregðast við og þetta er búið að vera í umræðunni í nokkuð langan tíma. Það er búið að vinna að þessu máli í sennilega eitt og hálft ár og það hefur skapað þjóðfélagsumræðu og reynt hefur verið að nálgast málið þannig að um það gæti ríkt einhver víðtækari sátt. Sú andstaða sem augljós er í þessu máli núna er því mikil vonbrigði. Hún er það sérstaklega vegna þess að fyrir fram hefði maður kannski reiknað með því að andstaðan gæti fyrst og fremst orðið um gjaldtökuna, en svo er ekki. Það er sama hvert litið er, hvort sem það eru hagsmunaaðilar í ferðaþjónustunni, hvort sem það er í pólitíkinni hér á þingi eða annars staðar í samfélaginu, allir eru sammála um að það verði að bregðast við og eðlilegt sé að gera það með sérstakri gjaldtöku á þá sem njóta í þessum tilfellum. Þá er þetta spurning um að finna þá gjaldtökuleið sem ríkari sátt getur náðst um, aðferðafræðina við það að innheimta gjaldið.

Það er í raun mjög erfitt að hugsa sér að fara með mál í gegn að óbreyttu sem svo rík andstaða er við, ekki bara af hálfu hagsmunaaðila í greininni þar sem andstaðan virðist vera nokkuð almenn, við finnum hvernig stjórnarandstaðan á þingi talar, en það eru líka miklar efasemdir um málið hjá mörgum sem skipa sæti hjá stjórnarflokkunum. Ég hef áður lýst því yfir að ég hefði ákveðinn fyrirvara við þessa útfærslu málsins. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við komum upp skilvirku kerfi, ég hef haft áhyggjur af því að það sé ákveðið flækjustig í þessari leið sem leiði af sér að þetta renni of mikið í sjálft sig, umfangið verði of mikið. Mér hugnast ekki einhver ákveðinn eftirlitsiðnaður í kringum þetta. Ég tel að við þurfum að reyna að finna leið sem getur skilað okkur þeim markmiðum sem við höfum sett. Ég held að þær séu til og þær skili okkur því að það verði í senn sýnileiki og einfaldleiki í málinu, skilvirkni og að féð sem innheimtist nýtist sem allra mest og helst allt í þau verkefni sem við hugsum okkur að það eigi að fara í.

Nokkrar leiðir hafa verið nefndar í þeim efnum, til dæmis komugjöld. Þau hafa marga kosti. Í kringum komugjöldin er lítil sem engin umsýsla. Þetta er einföld innheimtuaðferð, þetta er skilvirkt og fjármagnið skilar sér alveg örugglega beint í þau verkefni sem til er ætlast. En það eru líka á því neikvæðar hliðar, þær snúa kannski sérstaklega að innanlandsfluginu. Það er augljóst að ef við ætluðum að fara þessa leið þyrfti, út af jöfnun, að leggja gjaldið á innanlandsflugið líka. Ef við færum þessa leið að einhverju leyti yrðum við að koma með mótvægisaðgerðir til að veikja ekki samkeppnisstöðu innanlandsflugsins og auka þar kostnað.

Þetta hefur líka aðra neikvæða hlið. Við erum að reyna að byggja Ísland upp sem ferðamannaland allt árið. Okkur hefur tekist vel í að lengja ferðamannatímabilið og með ólíkindum að verða vitni að því hversu margir ferðamenn koma hingað yfir vetrartímann. Hér er allt á fullu, er óhætt að segja. Yfir jól og áramót eru öll hótel meira og minna uppbókuð. Þetta er mikill hvalreki fyrir okkur og fyrir ferðaþjónustuna og fyrir samfélagið allt. Við þurfum auðvitað að reyna að stuðla að því með öllum ráðum að þessi sókn geti haldið áfram, ekki síst þar sem horft er líka til aukins ráðstefnuhalds. Þar hefur tekist mjög vel til. Harpa hefur opnað ákveðin tækifæri sem greinilega greiða fyrir leið inn á þann markað, hvataferðir. Ef farið yrði í einhvers konar komugjöld sé ég ekki fyrir mér að við gætum tekið áhættuna af því að leggja þau á og draga þannig úr samkeppnisstöðu í vetrarferðunum. Með öðrum orðum, þetta yrði þá að gilda að mínu mati takmarkaðan hluta úr árinu þegar mesti kúfurinn af ferðamönnum kemur hér. Þannig næðum við til skemmtiferðaskipanna, leiguflugfélaganna sem koma yfir hásumarið, við næðum þeim stóra straumi ferðamanna sem kemur með ferjunni til Seyðisfjarðar o.s.frv.

Rætt hefur verið svolítið um gistináttagjald. Við það eru kostir og gallar. Kostirnir eru þeir að það er einfalt, álagningin er einföld, af gjaldinu er ákveðin reynsla og fjármagnið sem innheimtist skilar sér alveg örugglega í þau verkefni sem það er hugsað. Er það skilvirkt? Það er aftur á móti spurning hvort hægt sé að segja að það sé skilvirkt vegna þess að auðvitað geta öll svona gjöld verið hvati til þess að skjóta undan og það er ákveðin hætta á því. Það er líka augljóst að þetta kæmi verr við þá sem eru með minni gististaði og ódýrari, þá sem eru að reyna að byggja upp heilsársstarfsemi á landsbyggðinni. Þetta næði ekki til tjaldstæða, en það er umtalsverður fjöldi sem ferðast hér um á húsbílum og gistir á tjaldstæðum. Við sáum hvað gerist í ferjunni, þannig að þetta er ekki gallalaus leið og leiðir til ákveðinnar mismununar eftir því í hvaða rekstri menn eru. Þetta skekkir samkeppnisstöðu.

Mér hefur reyndar dottið í hug í sambandi við gistináttagjaldið að það gæti verið til umhugsunar hvort heimila ætti einhvers konar samfélagsskatt á gistingu. Þá á ég við mjög lága skattheimtu, svokallaðan „city tax“-skatt þar sem nærsamfélagið hefur ákveðinn ávinning af uppbyggingu ferðaþjónustu. Ég held að það gæti verið að mörgu leyti jákvætt, það mundi skapa að mínu mati jákvæða umræðu og viðhorf gagnvart ferðaþjónustu í heimabyggð og mundi efla stuðning sveitarfélaga og gefa þeim aukin tækifæri til að standa saman að eflingu ferðaþjónustu í heimabyggð.

Einn kosturinn er enn ótalinn og það eru stöðumælagjöld. Við erum vön því nánast hvert sem við förum, hvort sem það er á Keflavíkurflugvelli eða á höfuðborgarsvæðinu eða úti um land, Akureyri, að við borgum í stöðumæli þar sem við leggjum bílnum okkar. Það eru búin til bílastæði og bílastæðahús o.s.frv. með ærnum tilkostnaði og fyrir það greiðum við og okkur finnst ekkert óeðlilegt við það. Er eitthvað óeðlilegt við það ef við komum á Þingvöll eða Geysi eða þess vegna í Kerið eða hvar sem er þar sem menn hafa fjárfest í ákveðnum innviðum, í bílastæðum, snyrtingum o.s.frv., að þar eigi sér stað einhver gjaldtaka, gjaldtaka sem menn fá einhverja þjónustu fyrir? Á fjölmennari stöðum getur þetta meira að segja boðið upp á möguleika á ákveðinni aðgangsstýringu. Við vitum að Þingvellir anna ekki þeim mikla fjölda sem kemur á stuttum tíma yfir hádaginn og það á líka við um Geysi og kannski aðra ferðamannastaði. Þá gæti verið ódýrara að leggja í stæðin á morgnana eða seinni part dags og á kvöldin. Þar með gæti þetta leitt til ákveðinnar aðgangsstýringar sem ég held — það þarf reyndar ekkert að halda um það, ef aukningin verður stöðug og heldur áfram verðum við að taka upp aðgangsstýringar.

Gallarnir við stöðugjöldin eru ákaflega fáir. Þetta er tækni sem við þekkjum. Ég hef eiginlega ekki komið auga á gallana. En það er auðvitað mikilvægt að um það sé einhver ákveðinn rammi þannig að við sjáum þetta ekki spretta upp algjörlega án stjórnar og án þess að því fylgi einhvers konar innviðauppbygging sem réttlætir slíka gjaldtöku.

Mikil greiningarvinna hefur farið fram á vegum ráðuneytisins við gerð frumvarpsins og hún mun örugglega nýtast okkur í atvinnuveganefnd við það að taka þetta mál til meðhöndlunar núna. Verkefni nefndarinnar verður að leita einhverra leiða sem meiri sátt getur ríkt um og ég hef fulla trú á því að svo geti orðið og ítreka að hér er ekki um að ræða ágreining um gjaldtökuna sjálfa, sem auðvitað er grundvallaratriði í málinu, heldur þá aðferðafræði sem við finnum til þess að takast á við gjaldtökuna.