144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því tilefni sem hæstv. ráðherra varpar hér upp varðandi það í hvaða nefnd þetta mál eigi að fara þá hefur í allri umræðunni verið ítrekað um það rætt og litið á það sem eðlilegan hlut að þetta mál færi til atvinnuveganefndar. Um annað hefur ekki verið talað svo að ég hafi heyrt þannig að ég hef gert ráð fyrir því, eins og aðrir nefndarmenn, sem auðvitað hafa verið að ræða þetta mál sín á milli, að svo yrði í þessu máli. Það þarf ekki heldur að líta langt aftur á málaskrá þingsins til þess að átta sig á því að mál af þessum toga hafa farið til atvinnuveganefndar eða forvera hennar, iðnaðarnefndar, sem málaflokkar þessa ráðuneytis heyra að mestu leyti undir. Ég mun því leggja það til, virðulegi forseti, að þetta mál fari til hv. atvinnuveganefndar.