144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:44]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni, ég hafði sjálf gert ráð fyrir því að þetta mál færi til atvinnuveganefndar. Eins og sést á því að ég stend hér í lokaandsvari við 1 umr. málsins er þetta eitthvað sem ég hef verið að hugsa undir umræðunni og er að velta fyrir mér. Það eru raunar rök fyrir því að málið geti farið til þriggja nefnda. Það gæti farið til atvinnuveganefndarinnar, eins og við höfum gert ráð fyrir vegna þess að þetta er sannarlega atvinnugrein, ein mikilvægasta atvinnugrein okkar Íslendinga. Það gæti farið til efnahags- og skattanefndar þar sem við erum sannarlega að tala um gjaldtöku, mætti á ákveðinn hátt segja að þetta sé skattamál. Það gæti líka farið til umhverfis- og samgöngunefndar, vegna þess að í markmiðsgrein frumvarpsins er talað um hvert markmið er með frumvarpinu og það er að vernda náttúruna og tryggja gjaldstofna til þess að stuðla að vernd og uppbyggingu hennar. Þetta mál er því tiltölulega snúið.

Ég sé að menn eru að setja sig hér á mælendaskrá og það er ágætt. Þetta er kannski eitthvað sem við ættum að ræða og ég mundi gjarnan vilja hlusta á sjónarmið þingmanna áður en ég legg til hvert málið fer.