144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er æðimerkileg og kúnstug staða sem upp er komin þar sem við höfum hér verið að ræða frumvarp til laga um náttúrupassa í nokkra daga. Þar hefur komið fram að ekki aðeins eru fulltrúar beggja stjórnarflokka efnislega ósáttir við innihaldið heldur virðist nú koma fram að hv. þm. Jón Gunnarsson og hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir eru heldur ekki sammála, þótt í sama flokki séu, um hvert eigi að skjóta málinu. Hér liggur raunar bara fyrir ein tillaga, um að skjóta málinu til hv. atvinnuveganefndar, en hæstv. ráðherra hefur bent á að það sé önnur leið, hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Fyrir því hafa verið færð þau rök að þetta sé svo tengt almannaréttinum sem er til umfjöllunar í tengslum við náttúruverndarlög hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur líka verið nefnd hér en það sem ég furða mig fyrst og fremst á er að við séum hér að velkjast í vafa um málsmeðferðina, að þinglið Sjálfstæðisflokksins sé ekki einu sinni sammála um það hvernig eigi að fara með málið. Ekki þar fyrir, við höfum áður deilt hér um málsmeðferð og ég minnist rammaáætlunarinnar (Forseti hringir.) sem hæstv. umhverfisráðherra mælti fyrir en var eigi að síður öllum að óvörum skotið til hv. atvinnuveganefndar þvert á skilning okkar sem þá töluðum í því máli. Mér finnst þetta mjög furðuleg staða.