144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:56]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs undir þessum lið til að gera athugasemdir við það að við séum að ræða það á síðustu metrum umræðunnar hvert málið á að fara. Mér hefði fundist eðlilegt að það hefði þá legið fyrir í upphafi máls þannig að menn gætu rætt þetta undir þeim formerkjum með allar upplýsingar á borðinu, en þetta lyktar af því að menn séu með einhverju móti að máta málið í umræðunni á þingi og velta fyrir sér hvar það eigi mesta möguleika.

Það vill einfaldlega þannig til að þetta mál nýtur ekki mikilla vinsælda og það veit hæstv. ráðherra býsna vel. En ég kalla þá eftir því að hún gefi það skýrt til kynna hvaða hugmyndir hún hefur í þessum málum og leggi formlega til að málið fari til umhverfisnefndar. Ég held að það séu ágætisrök fyrir því en það hefði átt að liggja fyrir miklu fyrr og strax í upphafi þessarar umræðu ef svo hefði átt að vera. (Forseti hringir.) Þetta er ekki góður vitnisburður um þann undirbúning sem farið hefur fram um þetta mál af hálfu hæstv. ráðherra.